Enski boltinn

Robertson hjá Liverpool: Of margir hengja haus þegar við lendum undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með Ozan Kabak og Andy Robertson eftir tapleikinn á móti Chelsea í gær.
Jürgen Klopp með Ozan Kabak og Andy Robertson eftir tapleikinn á móti Chelsea í gær. Getty/ Laurence Griffiths

Andy Robertson og félagar hjá Liverpool töpuðu fimmta heimaleiknum í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar Chelsea sótti 1-0 sigur á Anfield.

Liverpool liðið er nú í sjöunda sæti og útlitið er ekki mjög bjart í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Titilvörnin hefur gengið hörmulega og Liverpool er fyrstu Englandsmeistararnir í sögunni til að tapa fimm heimaleikjum í röð.

„Síðasta tímabil er búið og það er komið nýtt tímabil. Við höfum ekki verið nálægt því að vera eins góðir og Liverpool lið á að vera. Við dettum neðar og neðar og þetta er ekki nógu gott,“ sagði Andy Robertson, bakvörður Liverpool, við Sky Sports.

„Leikjunum fer að fækka og við þurfum að setja pressu liðin í kringum okkur. Fólk heldur kannski að við séu búnir á því en við þurfum að ná í úrslitin til að sýna þeim að það sé ekki rétt. Eins og er þá erum við ekki að gera það,“ sagði Robertson.

„Það eru of margir í liðinu sem hengja haus þegar við lendum 1-0 undir. Fótbolti snýst um að vinna sig út úr höggunum. Við getum ekki treyst á fortíðina,“ sagði Robertson.

Liverpool vann ensku deildina með miklum yfirburðum í fyrra en nú er liðið óþekkjanlegt, bitlaust og óöruggt.

Liverpool liðið lék 68 heimaleiki í röð án þess að tapa á Anfield en hefur núna tapað síðustu fimm heimaleikjum sínum sem voru á móti Burnley, Brighton, Manchester City, Everton og nú síðast Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×