Valur að toppa á réttum tíma

Róbert Aron Hostert í baráttu við Þráinn Orra Jónsson í …
Róbert Aron Hostert í baráttu við Þráinn Orra Jónsson í fyrri úrslitaleiknum á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur og Haukar mætast í kvöld í hreinum úrslitaleik sem sker úr um hvort liðið verður Íslandsmeistari karla í handbolta 2021. Leikið verður á Ásvöllum í Hafnarfirði og fara Valsmenn með þriggja marka forskot inn í leikinn eftir 32:29-sigur á heimavelli í fyrri leik liðanna. Samanlögð úrslit beggja leikja einvígisins gilda.

„Þetta er ekki mikið forskot og Valsmenn geta ekki leyft sér að slaka mikið á. Þeir verða að sýna eins góða frammistöðu og síðast því ég geri ráð fyrir því að Haukarnir verði betri á sínum heimavelli, með bakið upp við vegg og ósáttir við sinn leik. Ég á von á því að þeir komi og gefi allt í þetta. Valmenn þurfa að standast það áhlaup til að klára þetta,“ sagði Sebastian Alexandersson, sem nýverið samdi við HK eftir að hafa stýrt Fram í efstu deild karla, í samtali við Morgunblaðið.

Valur verður að fá markvörslu

Sebastian, sem er fyrrverandi markvörður, segir Valsmenn verða að fá markvörslu í ljósi þess að Haukar munu alltaf fá sína markvörslu með Björgvin Pál Gústavsson á milli stanganna.

„Það skiptir miklu máli fyrir Val að fá markvörslu. Haukar munu alltaf fá sína vörðu bolta og þeir eru ekki með bestu vörnina á landinu fyrir ekki neitt. Hún hefur ekki litið sannfærandi út í síðustu tveimur leikjum en það er bara tímaspursmál hvenær hún hrekkur í gang aftur. Haukar munu alltaf fá einhverja markvörslu og þá verður Valur að fá sína til að eiga möguleika,“ sagði Sebastian.

Hann segir Val eiga meira inni frá Agnari Smára Jónssyni, sem skoraði ekki eitt einasta mark í fyrri leiknum. Þá bendir hann sömuleiðis á leikmenn sem Haukar verða að fá meira frá.

„Valur á inni meira frá Agnari Smára sem náði sér ekki á strik í síðasta leik. Það eitt og sér er kannski ekki lykilatriði því þeir eiga nóg af hæfileikum til að spila úr því. Það er hægt að leysa þetta með rétthentum manni og Arnór Óskarsson gæti dottið í gír eins og hann gerði á móti ÍBV. Rétt eins og Valur átti inni meira frá Agnari eiga Haukar líka meira inni frá sínum mönnum. Geir Guðmundsson var flottur og ég veit ekki af hverju hann spilaði svona lítið. Kannski er hann eitthvað meiddur. Þeir eiga svo helling inni hjá Tjörva og öðrum útispilurum.“

Viðtalið við Sebastian má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert