„Viljum vera í fyrsta sæti“

Tryggvi Garðar Jónsson leikmaður Vals í baráttunni við Birki Benediktsson …
Tryggvi Garðar Jónsson leikmaður Vals í baráttunni við Birki Benediktsson leikmann Aftureldingar. Unnur Karen

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals var sáttur með 27:25 sigur sinna manna gegn Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta í dag.

„Ég er mjög ánægður. Mér fannst við flottir í dag, gera þetta vel. Við náum fljótt tökum á leiknum, rauða spjaldið var smá vendipunktur fyrir þá. Það er eflaust vont að missa sinn eina línumann út af með rautt spjald. Mér fannst við vera með góð tök á leiknum og vorum heilt yfir flottir.“

Ungu strákar Vals hafa spilað vel á tímabilinu og var engin undantekning á því í dag. Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir spiluðu báðir nánast allan leikinn og stóðu sig sérlega vel.

„Þetta hefur bara verið svona. Róbert [Aron Hostert] hefur lítið verið með okkur, sem og Magnús [Óli Magnússon]. Agnar [Smári Jónsson] verður vonandi með í næsta leik og þetta bara gerir okkur vonandi gott upp á framhaldið. Ég er með breiðan og góðan hóp og í síðustu leikjum hef ég verið mjög ánægður.“

Eins og Snorri minntist á áður verður Agnar Smári mögulega með í næsta leik Vals. Magnús Óli verður svo mögulega klár fljótlega eftir það en eitthvað lengra er í Róbert Aron.

„Ég þori ekki að segja með Magga. Hvort sem það er næsti leikur eða þar næsti verður bara að koma í ljós. Það þarf líka að koma í ljós í hvernig formi hann er, hann hefur náttúrlega ekki spilað handbolta í töluverðan tíma og getur örugglega ekki spilað 60 mínútur. Robbi verður vonandi klár í febrúar.“

Björgvin Páll Gústavsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins í kvöld. Hann varði 20 skot og þar af tvö vítaköst.

„Ég ætla ekki að segja að þetta sé eðlilegt en maður er góðu vanur. Hann er góður markmaður og þetta er bara það sem hann getur. Hann er líka fagmaður, gerir hlutina vel. Hann hefur reynst okkur gríðarlega vel, sérstaklega núna þegar það eru skakkaföll og annað.“

Með sigrinum fer Valur upp í annað sæti deildarinnar. Næsti leikur þeirra er heimaleikur gegn Selfossi.

„Mér líst vel á framhaldið. Það er lítið eftir af leikjum og ekkert svakalegt álag. Við þurfum að halda vel á spilunum, taka einn leik í einu og halda áfram að vinna í okkar hlutum. Við viljum vera í fyrsta sæti og berjast um þá titla sem eru í boði.“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert