Hafa áhyggjur af Gerrard og Liverpool

Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti með Rangers í Skotlandi.
Steven Gerrard hefur gert frábæra hluti með Rangers í Skotlandi. AFP

Forráðamenn skoska knattspyrnufélagsins Rangers hafa miklar áhyggjur af því að Steven Gerrard, stjóri liðsins, muni láta af störfum eftir tímabilið 2022.

Það er Football Insider sem greinir frá þessu en Gerrard er samningsbundinn skoska félaginu út tímabilið 2023-24.

Samningur þýska knattspyrnustjórans Jürgens Klopps við Liverpool rennur einmitt út á sama tíma en enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hugsanlegt brotthvarf Klopp frá Liverpool að undanförnu.

Klopp hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá þýska landsliðinu og gæti hann látið af störfum hjá Liverpool eftir næsta tímabil til þess að taka við Þýskalandi eftir HM 2022 í Katar.

Þá væri Liverpool án þjálfara en Football Insider greinir frá því að forráðamenn Liverpool hafi nú þegar sett sig í samband við Gerrard um að taka við liðinu á eftir Klopp.

Gerrard hefur gert frábæra hluti í Skotlandi og er aðeins fjórum stigum frá því að leiða Rangers til sigurs í skosku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í tíu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert