Úrskurður í máli Fram og KR

KR-ingar geta ennþá áfrýjað til áfrýjunardómstóls KSÍ.
KR-ingar geta ennþá áfrýjað til áfrýjunardómstóls KSÍ. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur ákveðið að vísa frá kærum Fram og KR um þá ákvörðun stjórnar KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu 2020.

KR var í fimmta sæti úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, þegar ákveðið var að hætta keppni á meðan Framarar voru í þriðja sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar.

KR missti af Evrópusæti en Fram missti af sæti í efstu deild og ákváðu bæði félög að kæra ákvörðun stjórnar KSÍ um að hætta keppni á mótinu.

„Af framangreindum ákvæðum reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál leiðir að ekki er gert ráð fyrir að ákvarðanir sem teknar eru af KSÍ eða í þessu tilfelli stjórn KSÍ sæti kæru til aga- og úrskurðarnefndar nema sérstök heimild liggi til þess í lögum eða reglugerðum KSÍ,“ segir meðal annars í úrskurði aganefndarinnar.

Bæði félög eiga kost á því að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ og hafa þau þrjá virka daga til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert