Þrír reknir á svörtum mánudegi

Matt Nagy er einn þeirra aðalþjálfara sem voru látnir taka …
Matt Nagy er einn þeirra aðalþjálfara sem voru látnir taka pokann sinn í gær. AFP

Þrír aðalþjálfarar liða í NFL-deildinni í amerískum fótbolta voru reknir úr störfum sínum í gær þegar í ljós var komið að liðin þrjú kæmust ekki í úrslitakeppnina.

Brian Flores var rekinn frá Miami Dolphins, Mike Zimmer var rekinn frá Minnesota Vikings og Matt Nagy var rekinn frá Chicago Bears.

Daginn áður hafði Denver Broncos rekið aðalþjálfara sinn, Vic Fangio, en Denver komst ekki heldur í úrslitakeppnina.

Mánudagurinn eftir að deildakeppni lýkur í NFL hefur um langt árabil verið kallaður „svartur mánudagur“ þar sem það hefur verið til siðs að eigendur liða sem hefur ekki gengið nægilega vel í deildinni reki aðalþjálfara og framkvæmdastjóra sína á þessum degi.

Eigendur Minnesota Vikings og Chicago Bears ráku sömuleiðis framkvæmdastjóra sína, þá Rick Spielman hjá Minnesota og Ryan Pace hjá Chicago.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert