Skagafjörðurinn titrar af spenningi

Sigurður Gunnar Þorsteinsson umkringdur varnarmönnum Vals.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson umkringdur varnarmönnum Vals. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Menn eru spenntir fyrir leiknum. Þetta er úrslitaleikur sem ekki allir fá að spila. Maður er tilbúinn í það. Þetta er leikur fimm og það er allt undir og þá kemur í ljós hvort liðið er betra,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Tindastóls, í samtali við mbl.is.

Tindastóll mætir Val í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta klukkan 20:15 í kvöld. Staðan í úrslitaeinvíginu er 2:2 og ljóst að sigurvegarinn í kvöld verður Íslandsmeistari. Tindastóll hefur aldrei áður orðið meistari. 

„Skagafjörðurinn titrar af spenningi. Stemningin á Sauðárkróki fer ekkert framhjá manni. Maður verður að taka þetta eins og hvern annan körfuboltaleik en samt ekki.“

Stuðningsmenn Tindastóls fá um 500 miða á leikinn en ljóst er að færri komast að en vilja.

„Það hefði verið hægt að selja miða þangað til pappírinn væri búinn. Ég hitti formanninn fyrir  síðasta leik og hann var eiginlega þunglyndur því hann hefði viljað 3.000 miða í viðbót,“ sagði Sigurður og hló.

Tindastóll vann fjórða leikinn á heimavelli eftir framlengingu og mikla dramatík. Sigurður segir það ekki hafa verið erfitt að ná sér niður eftir þann leik.

Pétur Rúnar Birgisson skoraði sigurkörfuna í síðasta leik.
Pétur Rúnar Birgisson skoraði sigurkörfuna í síðasta leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var frekar þægilegt. Maður var hress og kátur þangað til maður var kominn inn í klefa og svo náði maður sér niður á jörðina þegar maður labbaði út úr honum. Þannig var stemningin í liðinu.“ sagði Sigurður.

Valur var með boltann og allt jafnt þegar fimm sekúndur eða svo voru eftir af framlengingu. Pétur Rúnar Birgisson komst hinsvegar inn í sendingu og skoraði sigurkörfuna hinum megin.

„Við fórum vel yfir hvað þeir ætluðu að gera og vissum að ef þeir næðu skotinu yrði það erfitt og þá yrði sennilega önnur framlenging, svo okkur leið ágætlega,“ sagði Sigurður. Hann á von á hörkuoddaleik í kvöld. „Þetta verður væntanlega hörkuleikur. Bæði lið eru góð í bæði vörn og sókn og þetta snýst um hvort liðið nær að loka fyrr,“ sagði Sigurður Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert