40 ára fangelsi fyrir að hafa ekið niður hjólreiðafólk

Atvikið átti sér stað í Nevada í Bandaríkjunum í desember. …
Atvikið átti sér stað í Nevada í Bandaríkjunum í desember. Fimm létu lífið og nokkrir slösuðust. AFP

Fjörutíu og fimm ára gamall karlmaður var í gær dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir að hafa ekið á hóp hjólreiðafólks á hraðbraut í Nevvada í Bandaríkjunum í desember, með þeim afleiðingum að fimm létu lífið. Ökumaðurinn var undir áhrifum metamfetamíns. 

Saksóknarnar ákærðu Barson fyrir að aka á hóp fólks að morgni 10. desember sl., um 100 km frá Las Vegas. Hópurinn hafði verið að taka þátt í árlegri hjólreiðakeppni þar sem hjóluð er um 200 km löng leið frá Henderson í Nevada til Nipton í Kaliforníu. Fimm létust, sem fyrr segir, og nokkrir slösuðust. 

Maðurinn, Jordan Alexander Barson, getur fyrst óskað eftir reynslulausn eftir að hafa verið 16 ár á bak við lás og slá að sögn héraðssaksóknarans Steven B. Wolfson. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times.  Verjandi hans vonast til að það verði skemmri tími, eða eftir 10-12 ár, sýni Barson af sér góða hegðun. 

„Þetta var alveg hræðilegt mál,“ sagði Wolfson. „Þetta reyndi mjög á alla.“

„Ég skammast mín svo mikið“

Áður en dómur var kveðinn upp þá bað Barson ættingja þeirra sem létust og slösuðust afsökunar. „Ég hef valdið ykkur svo miklum sársauka og ég vil að þið vitið að ég er miður mín yfir því sem ég gerði. Í veit að þið munuð lifa með þessum sársauka að eilífu og það brýtur hjarta mitt að ég beri ábyrgð á þessu. Ef ég gæti gefið mitt eigið líf í þeirri von að þið mynduð fá ástvini ykkar til baka, þá myndi ég gera það. Ég skammast mín svo mikið.“

Hámarkshraði á þeim kafla þar sem slysið varð er 120 km á klst. Svæðið er aftur á móti talið vera almennt öruggt fyrir hjólreiðafólk þar sem vegöxlin er mjög breið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert