Krónprinsinn heimsótti Hellisheiðarvirkjun

Friðrik krónprins Danmerkur heimsótti Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar í dag.
Friðrik krónprins Danmerkur heimsótti Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar í dag. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Friðrik krónprins Danmerkur og Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur, heimsóttu í dag Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar (ON) þar sem þeir kynntu sér orkumál og kolefnisförgun Carbfix við virkjunina. Hélt ráðherrann auk þess málþing í virkjuninni.

Þetta kemur fram í tilkynningu ON.

Í heimsókninni var haldið í stutta skoðunarferð í nágrenni virkjunarinnar þar sem meðal annars var skoðaður Jarðhitagarður ON, þróunarsvæði fyrir vísinda- og atvinnuþróun, þar sem framleitt er vetni sem hægt er að nota á farartæki.

Málþing haldið

Þá hafði sendiráðið skipulagt málþing í virkjuninni um orkumál og var sendiherra Dana á Íslandi, Kirsten Rosenvald Geelan, einnig viðstödd. Sýndu Danirnir mikinn áhuga á kolefnisförgun Carbfix og hvaða aðferðum má beita til að umbreyta rafmagni í aðra orkubera, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Græn raforkuvinnsla færist mjög í vöxt en eitt viðfangsefnanna við að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi er að geta nýtt umhverfisvæna orku sem víðast. Að nýta rafmagnið beint eða af rafhlöðum hentar misvel, einkum í samgöngum þar sem kolefnisspor eldsneytisbrennslu er víða mjög mikið.

Í alþjóðlegri umræðu er þetta kallað Power-to-X þar sem grundvallaratriði er betri nýting umhverfisvænnar orku sem þegar er framleidd eða tækjanna sem vinna hana og rímar mjög vel við stefnumótun Orku náttúrunnar,“ segir í tilkynningunni.

Gamlir tímar rifjaðir upp

Þess ber að geta að fyrir hundrað árum, eða sumarið 1921, vígðu langafi og langamma krónprinsins, þau Kristján 10. og Alexandrína drottning rafstöð Reykvíkinga við Elliðaár. Var þess saga rifjuð upp í heimsókninni. 

Þá kom langalanga afi Friðriks, hann Friðrik 8., einnig í heimsókn til Íslands árið 1907. Fór hann þá í hestaferð um Suðvesturlandið þar sem hann kom meðal annars við Kolviðarhól þar sem kóngurinn flutti ávarp, en Hellisheiðarvirkjun stendur einmitt í landi Kolviðarhóls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert