Kannast ekki við að hafa mælt með frambjóðanda

Landskjörstjórn er með málið til skoðunar.
Landskjörstjórn er með málið til skoðunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landskjörstjórn hefur borist tvær fyrirspurnir frá fólki sem kannast ekki við að hafa mælt með forsetaframbjóðanda í komandi forsetakosningum. Er það í kjölfar þess að handskrifaðar undirskriftir voru settar á rafrænt form. Í framhaldinu voru tilkynningar sendar á viðkomandi í gegnum Ísland.is.

Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörsstjórnar, segir að málið sé til skoðunar. 

„Þetta gerist stundum í aðdraganda forsetakosninga þegar búið er að fara yfir meðmælendalista og búið að senda fólki upplýsingar að það hafi ljáð frambjóðanda meðmæli sín,“ segir Ástríður. 

Ástríður Jóhannesdóttir, er framkvæmdastjóri landskjörstjórnar.
Ástríður Jóhannesdóttir, er framkvæmdastjóri landskjörstjórnar.

Geta ekki dregið meðmæli til baka 

Athygli vekur að óháð því hvort fólk telur sig ekki hafa undirritað meðmælabréf þá getur fólk ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að búið er að skila inn framboði til landskjörstjórnar. Hins vegar getur fólk leitað til lögreglu ef því sýnist svo. 

„Þegar búið er að skila inn framboði þá getur fólk ekki dregið stuðning sinn til baka með formlegum hætti. Ef fólk telur að undirskriftin sé fölsuð þá er í raun eina leiðin að vísa í refsiákvæði í kosningalögum og þar segir að það sé meiriháttar brot að falsa undirskrift meðmælanda. Þá þarf fólk bara að leita til lögreglu,“ segir Ástríður. Slíkt brot varðar fangelsi allt að fjórum árum. 

Rafræna leiðin öruggust

Hún segir að yfirferð framboðslista feli í sér skoðun á listunum en bendir hún jafnframt á að öruggasta leiðin sé sú að mæla með frambjóðanda rafrænt í gegnum Ísland.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert