Látum reyna á eitt prósent möguleika

Jürgen Klopp á blaðamannafundinum í gær.
Jürgen Klopp á blaðamannafundinum í gær. AFP/Javier Soriano

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir útlitið sannarlega dökkt í viðureign sinni gegn Real Madríd í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en að þó líkurnar séu litlar sem engar á að þeir rauðklæddu fari áfram vilji liðið láta á það reyna.

Real Madríd hafði örugglega betur, 5:2, í fyrri leiknum á Anfield fyrir þremur vikum síðan og er staðan því afar vænleg fyrir Evrópumeistarana fyrir síðari leikinn á Santiago Bernabeu í Madríd í kvöld.

„Ég sagði það fyrir þremur vikum að með úrslitunum sem Madríd náði eru þeir komnir áfram í næstu umferð. Nú erum við hér, þremur vikum síðar, og vitum að við eigum leik fyrir höndum.

Ef það er eitt prósent möguleiki myndi ég vilja láta á það reyna. Við erum komnir hingað til að mæta gífurlega sterkum andstæðingi og reyna að vinna leikinn, eins erfitt og það er.

Það er ekki líklegt, en mögulegt. Þess vegna erum við hér. Við sjáum til hvert það leiðir okkur,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert