Innlent

Eldri borgarar skila meira til samfélagsins en þeir kosta

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Helgi Pétursson, formaður landssambands eldri borgara fagnar aðgerðaráætluninni.
Helgi Pétursson, formaður landssambands eldri borgara fagnar aðgerðaráætluninni.

Eldri borgarar skila meira til samfélagsins en þeir kosta, þetta sýnir ný skýrsla KPMG. Formaður landssambands eldri borgara fagnar því að samþætta eigi þjónustu við eldra fólk, núverandi fyrirkomulag sé ekki viðunandi. 

Virði en ekki byrði er yfirskrift greiningar á tekjum og skattgreiðslum eldra fólks á Íslandi en þar kemur fram að á árunum 2006 til 2021 hafa útsvarstekjur þeirra sem eru 67 ára og eldri fimmfaldast. 

Þá hefur hlutfall af útsvarstekjum sveitarfélaga sem kemur frá eldri borgum aukist mikið. Það er nú 12,2 prósent en var 8,7 prósent og er hlutfallið enn hærra þegar litið er til bæði ríkis og sveitarfélaga samanlagt eða 15 prósent.

Hlutfallið verður komið í 30 prósent árið 2050 ef spár ganga eftir. Eldri borgarar höfðu 97 prósent að meðaltekjum að jafnaði árið 2021. Stjórnvöld hafa sett upp sérstakt mælaborð en þær er hægt að kynna sér fjöldann allan af tölulegum gögnum.

Fagnar samþættingu í málum eldri borgara

Þá hrintu stjórnvöld af stað aðgerðaráætluninni „Gott að eldast“ sem er ætlað að samþætta verkefni ríkis og sveitarfélaga í málefnum aldurshópsins.

Helgi Pétursson, formaður landssambands eldri borgara fagnar þessu.

„Þetta er mjög spennandi og frá fyrsta degi hef ég verið sannfærður um að þetta yrði að veruleika. Menn tóku saman höndum, þrjú ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamband eldra fólks og það eina sem við þurftum að gera var að láta vita af okkur og að við værum að fara af stað.“

Samþættingin sé nauðsynleg.

„Það eru að koma fjórir aðilar inn á heimili. Einn má hjálpa þér í sokkana, hann má ekki hjálpa þér að borða, hann má ekki taka til, það þarf einhver annar að gera það og það eru alls konar svona hlutir sem við förum bara ofaní.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×