Mikið styrkleikamerki að landa þessum sigri

Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Daða Bærings Halldórsson á …
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttu við Daða Bærings Halldórsson á Leiknisvellinum í dag. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA-manna, var kampakátur með stigin þrjú sem KA-menn tryggðu sér með 1:0 útisigri á Leiknismönnum í 14. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Hann viðurkennir að þetta hafi ekki verið besti leikur norðanmanna í sumar, en liðið hafi sýnt mikla liðsheild og baráttu. 

Hallgrímur var sérstaklega ánægður með varnarleikinn. „Við vorum að berjast fyrir hver annan, og sérstaklega í seinni hálfleik, þar sem við fáum varla nein færi á okkur, en við vorum kannski heppnir að vinna hér í dag,“ segir Hallgrímur. 

Hallgrímur Jónasson, annar aðstoðarþjálfari KA-manna, stendur hér lengst til hægri …
Hallgrímur Jónasson, annar aðstoðarþjálfari KA-manna, stendur hér lengst til hægri í leik fyrr í sumar. Með honum eru Arnar Grétarsson, þjálfari KA og Steingrímur Örn Eiðsson, hinn aðstoðarþjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hann hrósaði sérstaklega Steinþóri Má, markverði KA-manna, sem hafi varið vel nokkrum sinnum í leiknum, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hallgrímur segir það styrkleikamerki að hafa náð að landa stigunum þrátt fyrir að leikurinn hafi verið erfiður. Þá hafi vallaraðstæður ekki verið eins og best er á kosið, en ekki sé hægt að skella skuldinni á þær. 

Hallgrímur er að sama skapi ánægður með að KA-menn hafi loksins náð að landa tveimur sigrum í röð, en gengið hefur verið brösugt nú seinni part sumars. „Já, við erum nú komnir í skottið á þessum liðum sem voru fyrir ofan okkur, við erum með í baráttunni og þar viljum við vera. Við teljum okkur vera með nógu sterkt lið til þess að vera þar.“

Hallgrímur segir að KA-menn hafi talið sig vera óheppna með úrslitin í nokkrum leikjum fyrr í sumar. „En nú eru tveir leikir, þar sem við spiluðum ekki vel, en náðum samt úrslitum, þannig að þetta jafnast svolítið út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert