Ragnar heim í Árbæinn

Ragnar Sigurðsson er kominn heim.
Ragnar Sigurðsson er kominn heim. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ragnar Sigurðsson, hinn þaulreyndi íslenski landsliðsmaður í knattspyrnu karla, er kominn heim í Árbæinn og er búinn að semja við uppeldisfélag sitt, Fylki. Gerir hann samning út næsta tímabil.

Þetta staðfesti knattspyrnudeild Fylkis rétt í þessu.

Ragnar lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Fylki áður en hann hélt í atvinnumennsku árið 2007. Hann gekk þá til liðs við Gautaborg og vann þar sænsku úrvalsdeildina á sínu fyrsta tímabili.

Árið 2011 söðlaði hann um fór til FC Kaupmannahafnar, þar sem hann vann dönsku úrvalsdeildina árið 2013.

Þaðan fór hann til Krasnodar í Rússlandi árið 2014 og sumarið 2016 gekk hann til liðs við enska B-deildarliðið Fulham í kjölfar hetjulegrar framgöngu með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi það sumarið.

Undanfarin ár hefur hann svo leikið í Rússlandi og Úkraínu, auk þess sem hann stoppaði stutt hjá Kaupmannahöfn að nýju á síðasta ári.

Sem áður segir gildir samningur hins 35 ára gamla Ragnars við Fylki út árið 2022.

Ragnar á að baki 97 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þar sem hann hefur skoraði fimm mörk, þar á meðal eftirminnilegt jöfnunarmark gegn Englandi í 16-liða úrslitum EM 2016.

Hann lék einnig með landsliðinu á HM 2018 í Rússlandi og hefur undanfarin ár myndað ógnarsterkt miðvarðapar með Kára Árnasyni, leikmanni Víkings úr Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert