Mikael skoraði sigurmarkið í fyrsta leik

Mikael Neville Anderson tryggði AGF fyrsta sigur liðsins á tímabilinu.
Mikael Neville Anderson tryggði AGF fyrsta sigur liðsins á tímabilinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson var hetja AGF þegar hann skoraði sigurmarkið í sínum fyrsta leik fyrir félagið í 1:0 sigri gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Mikael gekk til liðs við AGF rétt fyrir lokun félagaskiptagluggans í lok síðasta mánaðar þegar hann var keyptur frá Midtjylland.

Hann kom inn á sem varamaður í hálfleik í dag og skoraði sléttum stundarfjórðungi síðar, eftir klukkutíma leik.

Sannkölluð draumabyrjun hjá Mikael, en um var að ræða fyrsta sigur AGF á tímabilinu.

Jón Dagur Þorsteinsson var á sínum stað í byrjunarliði AGF og lék allan leikinn.

Með sigrinum spyrnti liðið aðeins við fótum og færði sig upp í 10. sæti deildarinnar, þar sem liðið er nú með 6 stig að loknum átta umferðum.

Vejle er eitt og yfirgefið í 12. og neðsta sæti með aðeins 1 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert