Erlent

Stal þyrlu en brotlenti henni strax

Samúel Karl Ólason skrifar
Þjófurinn misheppnaði virðist hafa reynt að ræsa þrjár aðrar þyrlur áður en honum tókst að koma einni í gang. Hann virðist hafa flogið henni af stað en brotlent henni nánast strax.
Þjófurinn misheppnaði virðist hafa reynt að ræsa þrjár aðrar þyrlur áður en honum tókst að koma einni í gang. Hann virðist hafa flogið henni af stað en brotlent henni nánast strax. AP/Nathaniel Levine

Misheppnaður þyrluþjófur reyndi að ræsa fjórar þyrlur á flugvelli í Sacramento í Bandaríkjunum á miðvikudagsmorgun. Honum tókst að ræsa eina þeirra en brotlenti henni um leið og hann tók á loft.

Við það skemmdust aðrar þyrlur á flugvellinum en brak úr þyrlunni dreifðist um stærðarinnar svæði.

Starfsmenn flugvallarins komu að þyrlunni á hliðinni og sáu að þjófurinn hafði stungið af. Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) er með málið til rannsóknar, þar sem það er alríkisglæpur að skemma flugvélar og þyrlur í Bandaríkjunum.

Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er og er tilefni þessa misheppnaða þjófnaðar enn óljóst. Alríkislögreglan er þó með mann grunaðan sem sást á upptökum úr öryggismyndavélum.

Héraðsmiðillinn KCRA 3 hefur, samkvæmt grein People (vefur KCRA 3 er ekki aðgengilegur frá Evrópu), eftir yfirmanni FBI á svæðinu að hafi viðkomandi ætlað sér að nota þyrluna til að fremja annan glæp komi til greina að sá gæti verið ákærður fyrir hryðjuverk.

KCRA 3 ræddi við flugmenn sem vinna og eiga flugvélar á flugvellinum sem um ræðir voru margir hissa á því að þjófnum hafi yfir höfuð tekist að ræsa fjórðu þyrlunni. Það sama eigi við um það að hann hafi komið henni af stað, að virðist án nokkurrar þjálfunar.

Hér að neðan má sjá fréttaflutning héraðsmiðilsins KCRA 3 um þyrluþjófinn misheppnaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×