„Á svolítið erfitt með að trúa þessu ennþá“

Kvennalandsliðið í hópfimleikum hrósaði sigri á EM á laugardaginn.
Kvennalandsliðið í hópfimleikum hrósaði sigri á EM á laugardaginn. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum varð á laugardag Evrópumeistari eftir hnífjafna baráttu við landslið Svíþjóðar í úrslitunum á Evrópumeistaramótinu í Guimaraes í Portúgal.

Ísland fékk 57.250 stig í heildareinkunn, nákvæmlega jafnmörg stig og Svíþjóð en íslenska liðið stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið fleiri greinar. Ísland vann tvær af þremur greinum, gólfæfingar og trampólín, en Svíþjóð vann á dýnu. Íslenska kvennalandsliðið varð síðast Evrópumeistari árið 2012 og fyrst árið 2010 þegar Gerpla keppti fyrir Íslands hönd. Á þremur síðustu Evrópumeistaramótum síðan 2012 hafa Svíar skákað Íslandi og staðið uppi sem sigurvegarar.

„Þetta er bara frábær tilfinning. Maður á svolítið erfitt með að trúa þessu ennþá og finnur það alveg að það er svolítið spennufall í hópnum. Ég held að við verðum bara næstu daga að ná okkur niður, þetta var svo mikil spenna.

Síðustu ár hefur bara verið 0,1 stigs munur þannig að við vissum alveg að þetta yrði hörkukeppni. Þessi lið eru greinilega alveg hnífjöfn eins og sást á stigunum en við unnum bæði áhöldin og það skilaði okkur sigri,“ sagði Hekla Mist Valgeirsdóttir, einn liðsmanna íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið.

Sterk liðsheild skóp sigurinn

Beðin um að meta hvað hafi helst skapað sigurinn sagði hún: „Ég tel að Ísland og Svíþjóð séu svipað góð lið en þetta snýst allt um að eiga sem bestan dag. Að sýna góða frammistöðu þar sem við þurfum að negla allar lendingar og negla öll stökkin á réttum tíma á þessum degi. Við vorum búnar að gera nánast gallalaust trampólín og svo gerðum við geggjaðan dans.

Við áttum bara dýnuna eftir og eins og hefur komið fram lenti Andrea Sif [Pétursdóttir fyrirliði] okkar í því óhappi að slíta hásin í næstsíðustu umferðinni á dýnunni. Þá hefði getað komið eitthvert panikk en við erum með svo sterkt lið, sterka liðsheild, að næsta stúlka hoppaði bara inn og við negldum síðustu umferðina. Ég held að það hafi skilað okkur sigrinum.“

Viðtalið við Heklu Mist má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert