Tvö mörk í uppbótartíma í sigri Real gegn Barcelona

Leikmenn Real Madríd fagna glæsilegu marki David Alaba.
Leikmenn Real Madríd fagna glæsilegu marki David Alaba. AFP

Real Madríd hafði betur í stærsta leik tímabilsins í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla, leik liðsins gegn Barcelona, með því að vinna 2:1 útisigur á Nývangi í dag.

David Alaba kom gestunum frá Madríd í forystu eftir rúmlega hálftíma leik. Í kjölfar skyndisóknar fékk hann boltann frá brasilíska ungstirninu Rodrygo við vítateigslínuna og skoraði með frábæru skoti í fjærhornið, óverjandi fyrir Marc-André ter Stegen í marki Barcelona.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma tvöfaldaði Lucas Vázquez forystu gestanna þegar hann fylgdi á eftir skoti Marco Asensio sem ter Stegen hafði varið.

Á sjöundu mínútu uppbótartíma minnkaði Sergio Agüero muninn fyrir Barcelona með sínu fyrsta marki, laglegri afgreiðslu á lofti eftir fyrirgjöf Sergino Dest.

Það var þó um seinan fyrir Börsunga og afar sterkur útisigur Real Madríd, sem tyllti sér að nýju á topp spænsku deildarinnar með honum, staðreynd.

Barcelona er eftir leikinn fimm stigum á eftir Real í áttunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert