Samverkamaður Gaetz játar glæpi þeirra í bréfi

Matt Gaetz hefur verið sakaður um vændiskaup og barnaníð.
Matt Gaetz hefur verið sakaður um vændiskaup og barnaníð. AFP

Í bréfi frá Joel Greenberg, nánum vini bandaríska þingmannsins Matt Gaetz , játar hann að þingmaðurinn og hann hafi greitt mörgum konum fyrir kynlíf. Þar á meðal var ólögráða stúlka. Í bréfinu skrifar Greenberg að hann hafi greitt konunum bæði með beinum peningagreiðslum sem og ýmsum gjöfum, bensíngreiðslum eða hlutagreiðslu á skólagjöldum. Staðhæfir Greenberg að hann hafi séð millifærslurnar sem lagðar voru á reikninga kvennanna fyrir hönd Gaetz.

Bréfið, sem blaðamenn The Daily Beast hafa undir höndum, var sent til fyrrverandi ráðgjafa Donald Trumps, Roger Stone. Var það þá í verkahring Stone að fá Trump til þess að veita Gaetz sakaruppgjöf fyrir meinta glæpi sína. Fyrir hjálp sína átti Stone síðan að fá greitt 250.000 dali í rafmyntinni Bitcoin frá Greenberg. Þetta kom fram í samtali Stone og Greenberg sem fór fram í gegnum spjallforritið Signal. Forritið á að eyða skilaboðum sem eru send á milli manna en svo virðist sem að Greenberg hafi tekið afrit af samtali þeirra sem blaðamenn The Daily Beast hafa einnig undir höndum. 

Siðanefnd Bandaríkjaþings rannsakar nú atferli Gaetz, en hann er meðal annars sakaður um mútuþægni, neyslu ólöglegra vímuefna og að nýta kosningasjóð til eigin nota. New York Times greindi frá því fyrr í mánuðinum að Gaetz sæti rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar vegna meints mansals og vændiskaupa, þar á meðal á stelpu undir lögaldri. Gaetz hefur neitað ásökunum og hefur almannatengslafyrirtæki sem Gaetz hefur ráðið sér til varnar sakað Greenberg um að bera fram falskar ásakanir gegn honum.

Hver er Joel Greenberg?

Þungamiðja málsins er hlutverk Joel Greenberg sem á sér sjálfur kostulega fortíð. Hann var áður kosinn sem skattheimtumaður Seminole-sýslu í Flórída árið 2016 og hefur verið ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína í starfi og mútugreiðslur. Meðal vafasamra útgjalda hans sem skattheimtumaður voru kaup hans á rafmyntum og stofnun hans á fyrirtæki sem átti að leyfa skattgreiðendum að borga skatta sína með rafmyntun. Greenberg keypti síðan tækjabúnað með almannafé til þess að hægt væri að taka við slíkum borgunum, sem reyndust síðan engar. Ári seinna kviknaði í tækjabúnaðinum eftir að hann færður úr skrifstofu Greenberg.

Rafmyntir leika hlutverk í skrípaleik Matt Gaetz og Joel Greenberg.
Rafmyntir leika hlutverk í skrípaleik Matt Gaetz og Joel Greenberg. AFP

Rannsókn yfirvalda á Greenberg hófst þegar hann var ásakaður um að áreita mögulegan andstæðing hans um embættið. Greenberg stofnaði gerviaðganga á samfélagsmiðlum til þess að bera rógburð út gagnvart andstæðingi sínum og saka hann um kynferðisbrot gegn nemanda, ásakanir sem reyndust síðan ekki fótur fyrir. Seinni rannsóknir yfirvalda bentu til þess að hann hafi notað bifreiðagagnagrunn sýslunnar til þess að falast eftir vændiskaupum, þar á meðal á stelpum á aldrinum fjórtán til átján ára.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert