Innlent

Nýtt sanngirnisbótafrumvarp gæti komið fram

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson segir að mögulega þurfi að vinna nýja löggjöf um sanngirnisbætur næsta haust.
Bjarni Benediktsson segir að mögulega þurfi að vinna nýja löggjöf um sanngirnisbætur næsta haust. Vísir/Einar

Forsætisráðherra segir að mögulega þurfi að gera aðra atlögu að lögum um sanngirnisbætur næsta haust. Það sé flókið að gera heildarlöggjöf um málaflokkinn eins og núverandi frumvarp miðar að. Hann telur mikilvægt að fjárhæð bóta verði ekki aðalatriðið í umræðunni.

Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur þáverandi forsætisráðherra um sanngirnisbætur hefur verið  umdeilt síðan það kom fram fyrir nokkrum misserum. Talsmaður Réttlætis kallaði það blekkingu í fréttum Stöðvar 2. Þá hefur það farið marga hringi í allsherjar- og menntamálanefnd. 

Flókið að gera heildstæða löggjöf um málið

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að um sé að ræða tilraun til að gera heildstæða löggjöf um málið.

„Það kemur svo í ljós að það er gríðarlega flókið viðfangsefni að setja þetta í eina löggjöf með samræmdum hætti þannig að við getum náð utan um ólík tilvik . Ég held að þetta frumvarp sé mjög virðingarverð tilraun. Ef við þurfum að taka dýpri umræðu og hlusta eftir fleiri sjónarmiðum og taka tillit til þeirra og mögulega gera aðra atlögu að því í haust verður svo að vera,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að málið sé nú í höndum allsherjar og menntamálanefndar.

„Ég studdi það að málið kæmi fram og við tækjum umræðuna. Sitt sýnist hverjum. Nefndin þarf bara að ljúka sínum störfum. Ef hún telur að ríkisstjórnin þurfi að vinna málið frekar þá gerum við það en þetta á eftir að koma betur í ljós,“ segir Bjarni. 

Bótaupphæðin megi ekki verða aðalatriðið

Gagnrýnt hefur verið að hámarksupphæð sanngirnisbóta samkvæmt frumvarpinu sé fimm milljónir króna sem sé helmingi lægri upphæð en sanngirnisbætur fortíðarinnar. Bjarni segir að líta þurfi til margra þátta.

„Fjárhæðirnar geta verið viðkvæmur þáttur að úrlausn svona mála en við þurfum kannski að gæta okkur á að þær verði ekki aðalatriðið. Fordæmi hafa verið sett í fortíðinni en það er mjög erfitt að bera eitt mál saman við það næsta og segja að þetta eigi allt saman að spegla,“ segir Bjarni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×