Derby fer í greiðslustöðvun og missir 12 stig

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby County.
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby County. AFP

Enska knattspyrnufélagið Derby County hefur verið sett í greiðslustöðvun vegna fjárhagsörðugleika og á þar með yfir höfði sér að missa 12 stig í B-deildinni.

Eigandi félagsins, Mel Morris, skýrði frá því að félagið tapaði um 1,3 til 1,5 milljónum punda á mánuði og einn fjárgæslumannanna sem skipaðir hafa verið til að sjá um fjármál félagsins, Andrew Hosking, sagði við Sky Sports að lokanir vegna kórónuveirunnar hefðu haft gríðarlega slæm áhrif á fjárhagsstöðuna.

„Okkar fyrsta verkefni er að tryggja að félagið spili alla leiki sína í deildinni í vetur og finna áhugasama aðila sem geta tryggt framtíð félagsins og starfsfólk þess," sagði Hoskins.

Mel Morris hefur beðið starfsfólk félagsins og stuðningsfólk afsökunar en hann kveðst hafa eytt meira en 200 milljónum punda af eigin fé til að reyna að koma Derby í úrvalsdeildina. Hann sagði við Sky Sports að hann væri miður sín yfir stöðu félagsins.

Derby er í 12. sæti af 24 liðum í B-deildinni eftir átta umferðir, með 10 stig, og verður því með tvö stig í mínus í neðsta sætinu þegar refsingin tekur formlega gildi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert