Sannfærandi sigur Tindastóls

Kayla Bruster hjá Fylki og Elísa Bríet Björnsdóttir hjá Tindastóli …
Kayla Bruster hjá Fylki og Elísa Bríet Björnsdóttir hjá Tindastóli í baráttu á KA-vellinum í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Tindastóll og Fylkir mættust í Bestu-deild kvenna í dag. Leikurinn var í 4. umferð deildarinnar og var spilaður á KA-vellinum á Akureyri.

Skagfirðingar og Húnvetningar létu það ekki á sig fá og þyrptust þeir á völlinn. Nokkrir stuðningsmenn Fylkis létu líka sjá sig og var örlítill hiti í stúkunni um tíma en líklega allt í góðu þar.

Tindastóll vann mjög góðan 3:0-sigur og kom sér upp í 4. sætið í deildinni. Liðið er nú með sex stig. Lið Fylkis var taplaust fyrir leik en er nú í 6. sæti með sín fimm stig

Í fyrri hálfleik var sótt á báða bóga. Heimakonur í Tindastól voru töluvert meira ógnandi og náðu þær að skora tvisvar í hálfleiknum. Fyrra markið skoraði unglingur frá Skagaströnd eftir undirbúning jafnöldru sinnar. Elísa Bríet Björnsdóttir gerði engin mistök eftir að Birgitta Rún Finnbogadóttir hafði sent hana í gegn um vörn Fylkis.

Staðan var lengi 1:0 en undir lok hálfleiksins þrumaði María Dögg Jóhannesdóttir boltanum í stöng og inn eftir að Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis hafði slegið boltann út í teiginn eftir hættulega fyrirgjöf.

2:0 var staðan í hálfleik í sólskininu á Akureyri og allt í blóma hjá heimakonum.

Leikmenn Tindastóls fagna einu markanna í dag.
Leikmenn Tindastóls fagna einu markanna í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Liðin sóttu áfram í seinni hálfleik. Tindastóll var við það að bæta við marki snemma í honum en Tinna Brá varði vel í marki Fylkis. Þegar leið á hálfleikinn voru það Fylkiskonur sem sóttu mun meira. Þær fengu urmul af hornspyrnum sem ekki nýttust og einhver skotfæri.

Í raun skapaðist lítil hætta við mark Tindastóls. Varnarmenn og markvörður Stólanna gerðu margoft vel og svo kom náðarhögg heimakvenna skömmu fyrir leikslok. Þá slapp Laufey Harpa Halldórsdóttir ein í gegn eftir langt útspark markvarðar og skalla Jordyn Rhodes og skoraði í mitt mark Fylkis.

Flottar stúlkur frá Skagaströnd

3:0 urðu þá lokatölurnar og verður sigur Stólanna að teljast sannfærandi og sanngjarn. Aftasta lína Stólanna var mjög traust og var Monica Wilhelm í markinu virkilega góð. Hún þurfti lítið að verja en greip alla bolta sem komu inn á teiginn, bæði háa sem lága.

Stúlkurnar tvær frá Skagaströnd, sem báðar eru fæddar árið 2008, voru flottar og þær eiga bara eftir að verða betri með aukinni reynslu.

Tindastóll virðist vera með massíft og gott lið og er starfið á Sauðárkróki að skila inn fullt af góðum leikmönnum. Það er í raun ótrúlegt að halda út svona góðu liði af svæði með svo fáa íbúa. Upptökusvæðið er fámennt en leikmenn koma allir úr nágrannabyggðum Sauðárkróks fyrir utan útlendingana fimm.

Lið Fylkis átti lítið skilið úr leiknum en mark frá þeim í stöðunni 2:0 hefði getað valdið skjálfta hjá heimakonum á lokakafla leiksins. Lítið fór fyrir framherjum liðsins og aðeins varamaðurinn Marija Radojicic náði að sýna einhverja takta.

Eftirlitsmaðurinn kynnti liðin

Í lokin verður að fjalla örlítið um framkvæmd leiksins. Engin aðstaða var tilbúin fyrir fréttafólk og enginn vallarþulur var að störfum. Bragi Bergmann, eftirlitsmaður leiksins, hljóp til og kynnti liðin til leiks. Honum fannst ekki annað hægt í leik í efstu deild.

Stöð 2, sem sér um að fjalla um Bestudeildirnar í sjónvarpi, var með einn tökumann á staðnum og ekki söguna meir. Að þetta skuli vera staðan í efstu deild kvenna á Íslandi sýnir svo ekki verður um villst að langt er í land með jafna stöðu kynjanna í boltanum. Svona lagað hefði aldrei gerst ef lið í efstu deild karla hefði þurft að fá lánaðan völl hjá KA.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Tindastóll 3:0 Fylkir opna loka
90. mín. Saga Ísey Þorsteinsdóttir (Tindastóll) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert