Áfengisstuldur stöðugur á milli ára

Áfengisstuldur hefur ekki færst í vöxt.
Áfengisstuldur hefur ekki færst í vöxt. Kristinn Magnússon

86 einstaklingar hafa verið kærðir fyrir áfengisstuld það sem af er ári. Er það sambærilegt hlutfall við það sem það hefur verið á undanförnum árum að sögn Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR. 

Síðustu ár hafa að jafnaði um 100 einstaklingar verið kærðir fyrir áfengisstuld að sögn Sigrúnar. „Við höfum ekki orðið vör við meiri stuld á áfengi í ár heldur en síðustu ár,“ segir Sigrún. 

Að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur geisað þjófnaðarfaraldur á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Sigrún segir að enn sé ekkert sem gefi til kynna að þjófnaður hafi færst í aukana í verslunum ÁTVR. 

Sigrún segir algengast að þjófar taki sterkt áfengi. „Árlega höfum við verið með 0,03-0,04% óútskýrða rýrnun,“ segir Sigrún. 

Eins og gefur að skilja er fremur litlu magni stolið í einu. „Þetta er yfirleitt frekar lítið. Sumt leysist með sátt og fer aldrei lengra. Í öðrum tilvikum fara kærur í gegnum lögreglu,“ segir Sigrún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert