Ætla að skora og skora vegna baráttunnar við Ísland

Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir í leik Íslands og Svíþjóðar …
Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir í leik Íslands og Svíþjóðar í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænsku landsliðskonurnar í knattspyrnu eru með þau fyrirmæli að skora eins mikið af mörkum og þær mögulega geta þegar þær taka á móti Lettum í undankeppni EM í Gautaborg í dag.

Svíar og Íslendingar heyja einvígi um sigur í F-riðli undankeppninnar sem gulltryggir þátttökurétt á EM á Englandi sumarið 2022. Bæði lið eru með 13 stig en markatala Svía er betri, 25:2 gegn 21:2 hjá Íslandi. Svíþjóð og Ísland mætast síðan í Gautaborg næsta þriðjudag.

„Það er alveg klárt að við erum með það markmið að vinna Lettland með eins miklum mun og nokkur kostur er," sagði Kosovare Asllani, leikmaður Real Madrid og lykilleikmaður Svía um árabil, við Fotbollskanalen.

„Það er gríðarlega mikilvægt að skora mikið því markamunurinn getur ráðið úrslitum. Við verðum bara að skora og skora eins og mögulegt er. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur og við þurfum að ná í mjög góð úrslit," sagði varnarjaxlinn Hanna Glas.

Peter Gerhardsson þjálfari Svía  segir að það sé áfall fyrir Letta að vera án tveggja af bestu leikmönnum sínum í dag. Olga Sevcova, leikmaður ÍBV, og markvörðurinn Marija Ibragimova missa af leiknum. Gerhardsson hafði áður sagt að þessar tvær og Karlina Miksone, sem einnig leikur með ÍBV, væru þrír sterkustu leikmenn Letta.

„Sevcova er þeirra langbesti leikmaður og svo eru þær ekki með markmanninn. Það er bara Miksone sem spilar, svo lið þeirra er mun veikara en áður. Það er gott fyrir okkur en leiðinlegt fyrir Lettland. Við höfum talað um að hvert mark kunni að reynast dýrmætt. Við viljum vera með góða markatölu og ætlum að bæta hana. En það er mikilvægast að vinna leikinn," sagði Gerhardsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert