Lífið

Hætt að rann­saka mál hollenska Eurovision-farans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Joost Klein hefur ekki hugsað hlýlega til Eurovision eftir ófarirnar í maí.
Joost Klein hefur ekki hugsað hlýlega til Eurovision eftir ófarirnar í maí. EPA-EFE/EMIEL MUIJDERMAN

Sænsk yfirvöld hafa hætt rannsókn á máli Joost Klein, hollenska keppandans í Eurovision sem rekinn var úr keppni í Malmö í maí eftir meintar hótanir gegn ljósmyndara. Samkvæmt ríkissaksóknara eru ekki næg sönnunargögn í málinu.

Þetta kemur fram í umfjöllun sænska blaðsins Aftonbladet. Klein hefur sjálfur allar götur eftir keppni þvertekið fyrir að hafa hótað ljósmyndaranum. Eins og fram hefur komið voru síðustu klukkutímarnir fyrir Eurovision í ár afar spennuþrungnir vegna þátttöku Ísrael í keppninni og stríð þeirra á Gasa strönd þar sem þúsundir almennra borgara liggja í valnum.

Aftonbladet greinir frá því að rannsókn á málinu hafi farið fram síðan í maí. Haft er eftir Fredrik Jönsson hjá embætti saksóknara í Stokkhólmi að ekki hafi verið hægt að sanna að Klein hafi ætlað sér að skaða ljósmyndarann.

Myndefnið ekki nóg

Myndefni sé til af Klein á umræddri stundu þegar hann er sagður hafa átt í hótunum við ljósmyndarann. Það dugi ekki til og sýni ekki fram á að hann hafi haft nokkuð illt í hyggju. Ljóst sé að Klein hafi ekki viljað láta mynda sig en annað sé ekki hægt að sanna af myndefninu.

Sænska blaðið segir Klein áður hafa viðurkennt að hann hafi verið með hnefana á lofti og gert atlögu að ljósmyndaranum. Samkvæmt vitnum sá Klein eftir hátterni sínu og baðst ítrekað afsökunar á eftir.

Ekki víst hvort Holland taki þátt á næsta ári

Aftonbladet hefur ekki náð í Klein eftir ákvörðunina. Blaðið lætur þess getið að söngvarinn hafi þó birt myndband af hundinum sínum á Instagram og haft undir lagið „Who let the dogs out?“

Fram kemur að ekki sé enn ljóst hvort Holland verði með í keppninni á næsta ári. Forsvarsmenn hollenska ríkisútvarpsins séu ekki par sáttir við hátterni forsvarsmanna keppninnar og ákvarðanatökuna sem varð til þess að Klein og Hollandi var vísað úr keppni í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.