Undirritaði yfirlýsinguna við bekkjarsystur sína

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Argentínu um jarðhitamálefni. Í Spursmálum var hún spurð út í af hverju hún hefði gert það án samráðs við ráðuneytið sem Orkustofnun heyrir undir. Gaf hún þá skýringu að samráð hefði verið haft við utanríkisráðuneytið fyrir milligöngu sendiráðs Íslands í Washington.

Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu …
Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu sem hvorki utanríkisráðuneytið né umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið voru upplýst um. Ljósmynd/Aðsend

Utanríkisráðuneytið ekki upplýst

Utanríkisráðuneytið hefur borið til baka að það hafi haft vitneskju um viljayfirlýsinguna. Í svari til Morgunblaðsins kom fram að sendiráðið í höfuðborg Bandaríkjanna hefði haft milligöngu um vegabréfsáritun fyrir orkumálastjóra og að í tengslum við það hefði sendiráðinu borist yfirlit yfir dagskrá ferðar embættismannsins. Það hefði gerst nokkrum dögum fyrir fundinn þar sem yfirlýsingin var undirrituð.

Í fyrrnefndum Spursmálaþætti, sem vakið hefur mikla athygli, kemur fram að loftslagsráðherra Argentínu, sem undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd heimalands síns er Cecilia Nicolini. Hún var bekkjarsystir Höllu Hrundar við Harvard-háskóla og útskrifaðist á sama tíma og hún frá John F. Kennedy School of Government úr sama námi árið 2017.

Fullyrðir Halla Hrund að stjórnvöld hafi haft frumkvæði að málinu. Þrátt fyrir það kannast hvorki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið né utanríkisráðuneytið við aðkomu að málinu.

Orðaskiptin í þættinum varðandi þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en þá eru þau einnig rakin hér að neðan.

Stjórnvöld höfðu frumkvæðið

Mig langar til að spyrja þig út í viljayfirlýsinguna aftur. Hvernig kemur hún til? Hvernig gerist þetta að þú ferð yfir hálfan hnöttinn og undirritar viljayfirlýsingu um þetta samstarf.

„Í raun og veru átti ég fund, eða stjórnvöld áttu fund, eða stjórnvöld áttu fund, ráðherrar áttu fund, milli Íslands og Argentínu, og þar er óskað eftir að við eflum samstarfið og í kjölfarið kemur boð á að fara á þennan fund.“

 Höllu Hrund að góðu kunn

Loftslagsráðherrann sem þú undirritaðir samstarfið við er þér að góðu kunn.

Heldur betur.“

Halla Hrund er nýjasti gestur Spursmála. Þar ræðir hún m.a. …
Halla Hrund er nýjasti gestur Spursmála. Þar ræðir hún m.a. viljayfirlýsingu sem hún undirritaði við Argentínu án samráðs við yfirvöld á Íslandi. mbl.is/María Matthíasdóttir

Gamlar bekkjarsystur

Þið eruð gamlar bekkjarsystur.

„Ég er svo heppin, Stefán, að ég hef búið erlendis í 10 ár. ÉG hef verið í Bandaríkjunum tvisvar, við Harvard og Tufts, ég hef unnið við Harvard-háskóla. Ég hef unnið við ólíkar stofnanir í Evrópu og hvað þýðir það? Það þýðir að ég hef alveg gríðarlega sterkt alþjóðlegt tengslanet sem ég legg mig fram við, og mun leggja mig fram við í samhengi við embætti forseta Íslands, að nýta til að lyfta öllu því góða sem skiptir máli fyrir landið okkar. Og í þessu tilfelli, þegar kemur að málefnum í samhengi við Argentínu og Ísland að þá er það akkúrat sömu málefni og birtast okkur heilt yfir í Evrópu.“

Halla Hrund Logadóttir hefur gegnt embætti orkumálastjóra frá árinu 2021.
Halla Hrund Logadóttir hefur gegnt embætti orkumálastjóra frá árinu 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver hafði frumkvæðið?

Voruð það þið Nicolini sem höfðuð frumkvæði að þessari viljayfirlýsingu.

„Í raun og veru, bara eins og gerist með tengsl, það er áhuga...“

Eru það þið, af því að þú nefndir að þetta hefðu verið fundir milli stjórnvalda, voruð það þið sem höfðuð frumkvæði að þessu?

Alþjóðasamskipti lífæð landsins

„Það var í raun og veru óskað eftir því að ég kæmi á þessum fundi á milli ráðherra og þetta er í framhaldi af því og ég segi sem betur fer og leyfðu mér aðeins að bæta við. Hvað erum við að hugsa um þegar lífæð Íslands eru alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti. Við þekkjum það í gegnum útflutning á jarðhitaþekkingu meðal annars.“

Þetta er allt áhugavert, en það kemur viðtalinu ekki við.

„Jú það kemur því nefnilega við, ef þú leyfir mér að klára því við erum að horfa á að Argentína hefur áhuga á jarðhitanum okkar. Og auðvitað er það eitthvað sem er mikilvægt, öll Suður-Ameríka hefur möguleika....“

Spurning um forgangsröðun

Spurningin er þá hvort Orkumálastjórinn eigi þá ekki að koma orkumálum á Íslandi á hreint áður en við lögum þau í Argentínu.

„Það er frábær spurning því ég fór vel yfir ferðalögin. Forveri minn í starfi sem er fallinn frá.“

Guðni heitinn Jóhannesson.

„Já, Guð blessi minningu hans. Hann vann mjög öflugt starf þegar kom að jarðhitanum. Hann var mjög mikið erlendis. Hann vann mikið starf þegar kom að jarðhita erlendis.“

Já, við erum ekki að ræða Guðna heitinn hér í þessu viðtali.

„Nei, það sem skiptir máli er að þegar ég tek við embætti orkumálastjóra þá fer ég yfir þessi ferðalög. AF því að eitt af því sem skiptir máli...“

Þetta er ekki málefni þessa viðtals.

Viðtalið við Höllu Hrund má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert