Mjög góður gæi og vinur minn

Orri Freyr Þorkelsson hefur leikið afar vel með Sporting á …
Orri Freyr Þorkelsson hefur leikið afar vel með Sporting á leiktíðinni. Ljósmynd/Sporting

Orri Freyr Þorkelsson hefur leikið afar vel með Sporting, toppliði 1. deildar Portúgals í handbolta, í vetur á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Hann kom til félagsins frá Elverum í Noregi síðasta sumar.

„Þetta er búið að vera ótrúlega fínt. Það er gaman og gott að búa þarna og svo hefur gengið vel með liðinu. Ég er ótrúlega ánægður þar eins og er,“ sagði Orri við mbl.is en hann er í íslenska landsliðinu sem mætir Eistlandi í fyrri umspilsleiknum um sæti á HM 2025 í Laugardalshöllinni í kvöld.

Sporting er stórveldi í fótboltanum í Portúgal og risastórt félag. Orri finnur fyrir því og er ánægður með lífið í Lissabon.

„Þetta er töluvert öðruvísi en í Noregi. Það er haldið betur utan um þetta og aðstaðan er betri. Það er í rauninni allt í toppmálum þarna. Þetta er stórt félag með stórt fótboltalið sem varð meistari um helgina. Það er góð stemning í borginni.

Orri Freyr Þorkelsson fagnar marki með Sporting.
Orri Freyr Þorkelsson fagnar marki með Sporting. Ljósmynd/Sporting

Ég er ótrúlega ánægður. Ég fæ mikið traust frá góðum þjálfara sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann hefur gefið mér margar mínútur sem ég hef verðskuldað þar sem ég hef staðið mig. Ég skora mikið og þetta hefur verið ótrúlega fínt.“

Orri Freyr er í hörðum slag við Stiven Tobar Valencia um sæti í íslenska landsliðinu og þá leika þeir báðir fyrir stór félög frá Lissabon sem eru miklir erkifjendur, en Stiven leikur með Benfica.

„Við spilum með sitt hvoru liðinu í sömu borginni sem hafa verið erkifjendur alla tíð. Við erum samt mjög góðir félagar og erum í góðu sambandi utan vallar. Þegar við mætumst á vellinum erum við að sjálfsögðu andstæðingar.

Ég lít ekki á þetta sem neinn ríg. Ég ber virðingu fyrir honum og hann er mjög góður gæi og vinur minn,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert