Mikilvægt að fjölbreyttar raddir komi fram

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Ísland, segir að leggja þurfi áherslu á fjölbreytta nemendahópa innan háskólans og að mikilvægt sé að vinna statt og stöðugt að jafnréttismálum, sérstaklega nú í ljósi yfirstandandi heimsfaraldurs.

Þetta kom fram í ávarpi hans í morgun þegar Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru veitt en þau hlutu Vörður tryggingafélag og Samkaup.

„Covid hefur kennt okkur ýmislegt varðandi framfarir og viðbrögð okkar í kjölfarið, sem og vakið upp spurningar eins og erum við að hafa alla hópa í huga í viðbragðsáætlum okkar? Hvaða áhrif hefur Covid haft á ólíka hópa nemenda og starfsfólk?“

Verðum að læra af ungu fólki

Þá taldi hann einnig mikilvægt að fjölbreyttar raddir kæmu fram og hlustað væri á ungt fólk.

„Nýjar áskoranir kalla á ný vinnubrögð en einnig á sjálfsrýni, hvað erum við að gera vel og hvað má bæta? En í slíkri umræðu þurfa fjölbreyttar raddir að fá að heyrast. Það er ekki aðeins hlutverk háskóla að mennta fólkið sem mun taka við stjórn samfélagsins, heldur verða háskólar og atvinnulífið einnig að læra af unga fólkinu. Hlusta á áherslur þeirra og saman takast á við samtímann.“

Jafnréttismál spurning um sanngirni

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, sem hlaut Hvatningarverðlaunin á síðasta ári, tók einnig til máls á verðlaunaafhendingunni og sagði hann Íslendinga í dauðafæri að verða besta á heimsvísu hvað varðar jafnrétti en að við þyrftum að gera betur. Hann taldi einstök fyrirtæki þurfa að standa sig betur og sagði fögur fyrirheit duga skammt ef ákvarðanir fylgdu ekki með.

Að lokum nefndi hann að jafnréttismál væru ekki eingöngu mannréttindi heldur snerist þetta um sanngirni. „Með aukinni sanngirni á vinnustað þá bætist vinnustaðamenningin, starfsánægja vex, framleiðni starfsmanna vex og afkoma fyrirtækja batnar. Þetta er eins augljóst og það getur orðið.“

Jafnrétti í víðu samhengi

Í máli þeirra er fram komu á athöfninni í morgun mátti greina mikilvægi þess að horfa á jafnrétti í víðu samhengi og væri því ekki nóg að líta eingöngu á stöðu kynjanna í þeim málum.

Kom því meðal annars Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 og fræddi fundargesti um Regnbogakortið og lagalega stöðu hinsegin fólks á Íslandi. Eins og er, er Ísland í 14. sæti samkvæmt úttekt ILGA-Europe hvað það varðar og því ýmislegt sem má fara betur í þeim efnum.

Anna Maria Wojtynska, mannfræðingur og nýdoktor, vakti einnig athygli á ójafnri skiptingu innan vinnumarkaðsins. Sagði hún hátt hlutfall innflytjenda innan starfsgreina sem bjóða ekki upp á há laun áhyggjuefni. Hefði þetta áhrif á félagsstöðu hópsins í samfélaginu þar sem þetta dregur úr jafnrétti og félagslegri samheldni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert