Felldu frumvarp um réttinn til þungunarrofs

Frumvarp um réttinn til þungunarrofs var fellt í dag.
Frumvarp um réttinn til þungunarrofs var fellt í dag. AFP

Barátta demókrata til að gera réttinn til þungunarrofs að lögum í landinu mistókst í öldungadeild Bandaríkjaþings í dag eftir að repúblikanar kusu á móti frumvarpinu.

Frumvarp um heilsuvernd kvenna myndi hafa orðið að alríkislögum og hefði tryggt aðgang að þungunarrofi – en allir 50 repúblikanarnir og einn af 50 demókrötum kusu á móti frumvarpinu.

Sextíu atkvæði hefði þurft til að hleypa frumvarpinu áfram.

Hefði frumvarpið verið samþykkt hefði ríkjum einnig verið bannað að setja takmarkanir sem þykja læknisfræðilega óþarfar líkt og lögboðinn biðtíma og reglugerðir um þungunarrofsstofur.

Tókst ekki að verja rétt kvenna

„Því miður tókst öldungadeildinni ekki að verja rétt kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama,“ sagði varaforseti Kamala Harris, demókrati, fyrir utan öldungadeild þingsins eftir atkvæðagreiðsluna.

Kamala Harris.
Kamala Harris. AFP

Frumvarpinu var ætlað að vinna gegn gögnum sem lekið var til fjölmiðla þar sem segir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi fjallað um að draga úr rétti kvenna til þungunarrofs. Frumvarpið var talið dauðadæmt frá upphafi að sögn BBC.

Í gögnunum fjall­ar meiri­hluti dóm­ara um tíma­móta­dóm­inn Roe gegn Wade frá ár­inu 1973 en hann kvað á um það að þung­un­ar­rof stæðist stjórn­ar­skrá Banda­ríkj­anna. Fari það svo að Roe gegn Wade dómurinn verði ógildur, eins og meirihluti hæstaréttardómaranna leggur til í áliti sínu, yrði réttur til þungunarrofs ekki lengur varinn í stjórnarskrá Bandaríkjanna, heldur yrði málaflokkurinn í höndum einstakra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert