Fyrirliði meistaranna samdi á ný

Elísa Viðarsdóttir í leik með Val.
Elísa Viðarsdóttir í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Vals í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við Hlíðarendafélagið til tveggja ára.

Elísa hefur leikið með Val frá árinu 2016 og verið fyrirliði liðsins undanfarin tvö ár. Hún hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari með félaginu og einu sinni bikarmeistari.

Hún er 32 ára gömul og lék með meistaraflokki ÍBV frá 2008 til 2013, síðan tvö ár með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en með Val frá þeim tíma.

Samtals hefur Elísa spilað 222 deildaleiki á ferlinum og þar af eru 143 í efstu deild hér á landi. Hún hefur leikið 49 A-landsleiki og lék með íslenska landsliðinu á EM á Englandi síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert