Enski boltinn

„Leikmenn Liverpool eru eins og uppvakningar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool tapaði í fyrsta sinn fyrir Everton á Anfield í 22 ár á laugardaginn var.
Liverpool tapaði í fyrsta sinn fyrir Everton á Anfield í 22 ár á laugardaginn var. getty/Laurence Griffiths

Gary Neville, fótboltasérfræðingur á Sky Sports, segir að leikmenn Englandsmeistara Liverpool líti út eins og uppvakningar á vellinum.

Liverpool laut í lægra haldi fyrir Everton, 0-2, í Bítlaborgarslagnum á laugardaginn. Þetta var fjórða tap liðsins á heimavelli í röð og það er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir afar dapurt gengi eftir áramót.

Neville segir að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætti að íhuga að gera breytingar til að freista þess að snúa gengi meistaranna við.

„Það er þessi vöntun á breytingu. Önnur hugmynd. Þeir líta út fyrir að vera sigraðir, nánast eins og uppvakningar á vellinum. Gangandi um hugsandi sama hlutinn,“ sagði Neville í hlaðvarpi sínu hjá Sky Sports.

„Kannski þarf eitthvað öðruvísi frá Klopp? Jafnvel hann gæti hugsað með sér hvort hann ætti að gera eitthvað öðruvísi. Það er ekki mitt að ráðleggja Klopp og Liverpool hvað þeir eigi að gera en kannski að spila leikkerfi sem ver miðverðina betur eða fara í þriggja manna vörn? Við höfum séð önnur lið fara þá leið.“

Þrátt fyrir slakt gengi að undanförnu telur Neville að Liverpool endi í einu að fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar og komist þannig í Meistaradeildina á næsta tímabili.

„Mér sýnist þeir þurfa nýjar hugmyndir til að koma sér í gang því annars gæti þetta orðið mjög niðurdrepandi tímabil ef þeir komast ekki í Meistaradeildina sem ég held samt að þeir geri. En ef þú ert stuðningsmaður Liverpool eru áhyggjurnar meiri en fyrir tveimur til þremur vikum,“ sagði Neville.

Þrátt fyrir að illa hafi gengið í ensku úrvalsdeildinni undanfarnar vikur er Liverpool komið með annan fótinn inn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir 0-2 útisigur á RB Leipzig í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Sögðu Liverpool í „sögulegri krísu“

Það eru vandræði hjá ensku meisturunum í Liverpool. Þeir hafa tapað fjórum deildarleikjum í röð á heimavelli og eru sextán stigum á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða.

Gylfi elskar að spila gegn stóru liðunum

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt 65. mark í ensku úrvalsdeildinni í gær er hann skoraði annað mark Everton í 2-0 sigri á grönnunum í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×