Látin í frystikistu um árabil

Hlutar af líki norskrar konu, sem saknað hafði verið í …
Hlutar af líki norskrar konu, sem saknað hafði verið í mörg ár, fundust í frystikistu eldri manns, einnig norsks, í Svíþjóð. AFP

Norskur ríkisborgari, eldri maður eftir því sem sænska dagblaðið Aftonbladet greinir frá, er í haldi lögreglunnar í Vestre Värmland í Svíþjóð eftir að hlutar af líki norskrar konu, sem saknað hafði verið í mörg ár, fundust í frystikistu á heimili hans.

Christina Hallin, upplýsingafulltrúi Bergslagen-lögregluumdæmisins í Svíþjóð, staðfestir fund líkamshlutanna við norska dagblaðið VG. „Kringumstæðurnar eru þess eðlis að við höfum hafið rannsókn á manndrápi. Eldri maður er handtekinn og grunaður um verknaðinn,“ segir Hallin.

Í fréttatilkynningu frá saksóknara kemur fram að ekki sé ljóst hve lengi hinnar látnu hafi verið saknað en maðurinn handtekni liggur undir grun um manndráp og röskun á grafarró. Hann hefur þegar neitað sök í málinu og hefur lögregla nú tíma til hádegis á morgun, sunnudag, til að fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð.

„Hef séð hann með konu...“

Hallin upplýsingafulltrúi kveður lögreglu ekki geta tjáð sig um samband grunaða og hinnar látnu en ljóst sé að þau hafi þekkst. Nágrannar mannsins segja í samtali við Aftonbladet að hann hafi haldið sig að mestu til hlés og ekki verið í miklum samskiptum við fólk í nágrenninu. Gluggatjöldin hafi ávallt verið dregin fyrir hjá honum. „Ég hef séð hann með konu, en síðan eru liðin mörg ár,“ segir einn nágrannanna.

Norska dagblaðið tekur drjúgan hluta vefsíðu sinnar undir frétt af …
Norska dagblaðið tekur drjúgan hluta vefsíðu sinnar undir frétt af líkfundinum. Skjáskot/vg.is


Sem fyrr segir hvarf konan, af hverri líkamshlutar fundust í frystikistunni, fyrir mörgum árum en Aftonbladet hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi ótilkvaddur játað á sig manndráp þegar hann leitaði á sjúkrahús og hlaut þar aðhlynningu. Lögregla vill ekki tjá sig um það sérstaklega, né hvort sú játning hafi orðið kveikjan að því að lögregla heimsótti manninn og handtók í fyrradag. „Þær aðstæður komu upp að við sáum ástæðu til að hefja manndrápsrannsókn,“ segir Torbjörn Roos, yfirlögregluþjónn í Bergslagen, við Aftonbladet.

Grunaði hefur áður hlotið refsidóma fyrir ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda og búðahnupl.

Aftonbladet

Aftonbladet TV

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert