Vésteinn mikill fengur fyrir ÍSÍ

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ.
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vé­steinn Haf­steins­son er nýr af­reks­stjóri Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­band Íslands. Hann mun sam­hliða starf­inu leiða nýj­an starfs­hóp Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, mennta- og barna­málaráðherra, um stöðu og rétt­indi af­reksíþrótta­fólks. Til­kynnt var um þetta á blaðamanna­fundi í Gauta­borg í Svíþjóð í gær.

Þá skrifaði ÍSÍ und­ir sam­starfs­samn­ing við Mennta- og barna­málaráðuneytið um stefnu­mörk­un og upp­bygg­ingu af­reksíþrótt­a­starfs á Íslandi. Mark­miðið er að um­gjörð af­reksíþrótt­a­starfs verði eins og best verður á kosið þannig að af­reksíþrótta­fólk okk­ar standi jafn­fæt­is keppi­naut­um sín­um á alþjóðavísu.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ segir í fréttatilkynningu frá ÍSÍ vera mikinn feng að fá Véstein til starfa fyrir ÍSÍ og fyrir íslenskt samfélag.

„Vésteinn þekkir vel hvað þarf til svo að afreksíþróttafólk nái árangri á alþjóðlegum vettvangi og getur miðlað þekkingu og leitt þá vinnu sem fram undan er hjá ÍSÍ og stjórnvöldum gagnvart þessum stóra málaflokki. Hann hefur starfað á þessum vettvangi hjá systursamtökum okkar og náð gríðarlegum árangri. Þá hafa fáir Íslendingar sambærilega reynslu af afreksstarfi og Ólympíuleikum eins og Vésteinn og við væntum mikils af hans störfum í þágu afreksíþrótta.“

Lárus segir mikilvægt að allir vinni saman að því að efla sess afreksíþrótta í íslensku þjóðfélagi, þ.e. ÍSÍ, sérsambönd, íþróttahéruð, íþróttafélög, stjórnvöld, sveitarfélög, skólakerfið og atvinnulífið.

„Við erum alltaf sterkari saman og fyrir Ísland og Íslendinga er allt hægt,“ segir Lárus.

Vésteinn ásamt Daniel Ståhl og Simon Pettersson en Vésteinn þjálfaði …
Vésteinn ásamt Daniel Ståhl og Simon Pettersson en Vésteinn þjálfaði þá, til gull- og silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. Ljósmynd/Bildbyrån Joel Marklund
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert