Úrvalsvísitalan hefur hækkað um meira en 1,5% í fyrstu viðskiptum í dag. Icelandair leiðir hækkanir á aðalmarkaðnum en gengi flugfélagsins hefur hækkað um 3,8% í tæplega 300 milljóna veltu og stendur nú í 2,03 krónum á hlut.

Auk Icelandair hefur hlutabréfaverð Reita, Arion banka, Eimskips, Marels, Íslandsbanka, Alvotech og Kviku banka hækkað um meira en 1% í dag.

Eflaust má rekja hækkanir til þróunar á mörkuðum erlendis. Bandaríska S&P 500 vísitalan tók stökk eftir vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna og hækkaði um meira en eitt prósent í gær. Þá veiktist dollarinn einnig eftir tilkynninguna.

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti um 0,25 prósentur og gaf til kynna að hann myndi ráðast í aðra eins vaxtahækkun í næsta mánuði. Nefndarmenn peningastefnunefndar velta nú fyrir sér hvort og hvenær þeir muni ljúka vaxtahækkunarferlinu í vor, að því er segir í frétt WSJ.

Evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan hefur hækkað um 0,7% og breska FTSE 100 vísitalan um hálft prósent frá opnun markaða í morgun.