Erlent

Remdesivir samþykkt sem meðferðarúrræði gegn Covid í Bandaríkjunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Remdesivir hefur verið samþykkt sem meðferðarúrræði gegn Covid-19 í Bandaríkjunum. Það er fyrsta lyfið til að fá formlegt samþykki sem meðferðarúrræði gegn Covid vestanhafs.
Remdesivir hefur verið samþykkt sem meðferðarúrræði gegn Covid-19 í Bandaríkjunum. Það er fyrsta lyfið til að fá formlegt samþykki sem meðferðarúrræði gegn Covid vestanhafs. Getty/ Fadel Dawood

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur samþykkt fyrsta lyfið til meðferðar við Covid-19, Remdesivir. Lyfið er veirusýkingalyf sem gefið er sjúklingum, sem lagst hafa inn á spítala, í gegn um æð.

Rannsókn sem leidd var af heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna sýndi fram á að lyfið, sem lyfjafyrirtækið Gilead Sciences Inc. kallar Veklury, hafi að meðaltali flýtt bata sjúklinga um fimm daga, úr fimmtán niður í tíu.

Heimilt hefur verið í Bandaríkjunum að nota lyfið í neyðartilfellum frá því í vor en er nú fyrsta lyfið sem hefur fengið formlegt samþykki Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna sem meðferðarúrræði við Covid-19. Donald Trump Bandaríkjaforseti er meðal þeirra sjúklinga sem fengið hefur lyfið, þegar hann veiktist af Covid fyrr í þessum mánuði.

Lyfið má nota í meðferð sjúklinga sem náð hafa 12 ára aldri og eru minnst 40 kíló og hafa verið lagðir á sjúkrahús vegna Covid-veikinda. Í tilfellum sjúklinga sem eru yngri en tólf ára má nota lyfið í neyðartilfellum, samkvæmt leyfinu sem hingað til hefur verið í gildi.

Lyfið hefur annað hvort verið samþykkt eða má nota í neyðartilfellum í um fimmtíu löndum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði á dögunum samning við Gilead um kaup á 500 þúsund skömmtum á lyfinu. Öll ríki sem koma að samningnum, þar á meðal Ísland, geta nú sótt um að panta skammta af lyfinu og er það fyrsta lyfið sem hlaut meðmæli sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu til meðhöndlunar á Covid-19.


Tengdar fréttir

Lyfið sem Trump segir hafa læknað sig af Covid

Tilraunalyfið REGN-COV2, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti var meðhöndlaður með eftir að hann greindist með kórónveiruna, er enn á tilraunastigi og hvorki hefur verið sýnt fram á að það geri tilætlað gagn né sé öruggt.

Semja um kaup á Remdesivir

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur undirritað rammasamning við bandaríska lyfjarisann Gilead um kaup á 500 þúsund skömmtum af Remdesivir sem nýst hefur gegn einkennum Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×