Sekta samfélagsmiðla sem banna stjórnmálamenn

Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna, var úthýst af flestum samfélagsmiðlum …
Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna, var úthýst af flestum samfélagsmiðlum í janúar á þeim forsendum að hann hefði hvatt til óeirða. AFP

Báðar deildir löggjafarþingsins í Flórída-ríki í Bandaríkjunum hafa samþykkt frumvarp sem bannar samfélagsmiðlum að loka á stjórnmálamenn. Frumvarpið verður að lögum þegar ríkisstjórinn, repúblikaninn Ron DeSantis, hefur undirritað það.

DeSantis er bandamaður Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem hefur þurft að þola útilokun á nær öllum samfélagsmiðlum frá því stuðningsmenn hans réðust inn í þinghús Bandaríkjanna í janúar, en ekki er búist við öðru en að DeSantis skrifi undir lögin.

Frumvarpið er umdeilt, bæði fyrir bannið sjálft en ekki síður fyrir sérstaka undanþágu sem gerð er fyrir fyrirtæki sem „eiga og starfrækja skemmtigarð“. Sú undanþága er sniðin að Disney-samsteypunni, sem rekur skemmtigarðinn Disney World í Flórída, og má ætla að hagsmunarekstur fyrirtækisins hafi tryggt þeim undanþáguna.

Demókratar hafa sagt hana bera merki hræsni. „Ef Facebook kaupir skemmtigarð, kemur það í veg fyrir að við getum sett reglur um hvað gerist á Facebook?“ spurði Andrew Learned, þingmaður Demókrata á ríkisþingi Flórída.

Viðbúið er að tæknifyrirtæki muni leita til dómstóla til að fá lögin felld úr gildi á forsendum tjáningarfrelsisákvæðis fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar.

„Ímyndið ykkur ef ríkisstjórnin krefði kirkjur um að leyfa athugasemdir eða auglýsingar gegn fóstureyðingum á samfélagsmiðlum sínum. Það bryti gegn fyrsta viðaukanum og á sama hátt gera þessi lög það því þau skylda samfélagsmiðla til að birta efni sem þeir myndu annars ekki gera,“ segir Steve DelBianco, forstjóri tæknifyrirtækisins NetChoice.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert