Skatturinn opnar fyrir framtalsskil

Höfuðstöðvar Skattsins við Laugarveg.
Höfuðstöðvar Skattsins við Laugarveg.

Opnað verður fyrir framtalsskil einstaklinga 2021, vegna tekna ársins 2020, á mánudaginn kemur, 1. mars. Lokaskiladagur er 12. mars, sem er lengri frestur en í fyrra.

Ekki verður veittur aukafrestur í ár eins og tíðkast hefur til þessa heldur fá allir lengri tíma til framtalsskila.

Þeir sem taka að sér framtalsskil að atvinnu eins og t.d. löggiltir endurskoðendur og bókarar fá lengri skilafrest fyrir sína viðskiptavini eftir sérstöku samkomulagi.

Á árinu 2020 voru framteljendur 313.338 talsins en verða að þessu sinni liðlega 311 þúsund. Má það væntanlega rekja til Covid.

Vegna sóttvarnaráðstafana verður ekki boðið upp á framtalsaðstoð í afgreiðslum skattsins eins og verið hefur undanfarin ár. Þess í stað verður boðið upp á að panta símtal og fá aðstoð við að skila í gegnum síma. Eins verður hægt að senda tölvupóst til Skattsins og fá aðstoð.

Framtalið verður aðgengilegt frá og með næsta mánudegi á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is og ber öllum þeim sem náð hafa 16 ára aldri í lok árs 2020 að skila skattframtali og telja fram tekjur sínar og eignir, að því er fram kemur á vef Skattsins. Notast þarf við rafræn skilríki til auðkenningar við innskráningu eða veflykil.

Upplýsingar um t.d. launatekjur, skuldir, fasteignir og aðrar eignir, dagpeninga, hlutabréf, greiðslur og styrki eru forskráðar á framtölin.

„Fyrir allan þorra framteljenda eru framtalsskilin einföld og því ástæða til að hvetja fólk til að skoða leiðbeiningar og upplýsingar vel á vefsíðu Skattsins, skatturinn.is, og ganga frá sínum málum fljótt og vel,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Skattinum.

sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert