Smyth, sem er 28 ára, hefur verið atvinnumaður síðan 2017 en Opna breska er hans fyrsta risamót á ferlinum.
Smyth spilaði reyndar ekkert sérstaklega vel á fyrstu tveimur keppnisdögum Opna breska og lék samtals á átta höggum yfir pari og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Það var þó ekki allt dimmt og drungalegt hjá Smyth því hann gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 17. holu í dag.
Sautjánda holan er par þrjú hola en Smyth þurfti bara eitt högg til að koma kúlunni ofan í. Höggið glæsilega má sjá hér fyrir neðan.
Sautjánda holan á Royal Liverpool vellinum er ný og Smyth er sá fyrsti sem fer holu í höggi á henni. Hún er rúmir 120 metrar og stysta holan á vellinum.
Þegar þetta er skrifað er Smyth í 141. sæti á Opna breska en ljóst er að þátttöku hans á mótinu er lokið. Hann gleymir þó deginum ekki í bráð.
Fylgjast má með beinni útsendingu frá Opna breska á Stöð 2 Sport 4.