Mótherjar Íslands fá NBA-leikmann

Lorenzo Brown er orðinn Spánverji.
Lorenzo Brown er orðinn Spánverji. Ljósmynd/nba.com

Spánverjar, ríkjandi heimsmeistarar karla í körfuknattleik sem eru á meðal næstu mótherja Íslendinga í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023, hafa fengið liðsauka en fyrrverandi NBA-leikmaður er kominn með spænskan ríkisborgararétt og keppnisleyfi með landsliði þeirra.

Þetta er Lorenzo Brown, sem Minnesota Timberwolves valdi í nýliðavalinu árið 2013 en hann spilaði 107 NBA-leiki með Minnesota, Toronto, Phoenix og Philadelphia. 

Hann hefur síðan leikið í Kína og svo með Rauðu stjörnunni í Serbíu, Fenerbahce í Tyrklandi og UNICS Kazan í Rússlandi en hann er nýgenginn til iiðs við ísraelska stórliðið Maccabi Tel Aviv.

Brown er 31 árs gamall skotbakvörður og eykur breiddina í spænska liðinu sem hefur gjörbreyst á síðustu tveimur árum en í liðinu í dag eru engir eftir af þeim sem urðu heimsmeistarar árið 2019.

Spánverjar mæta Úkraínu í lokaleik fyrri undankeppninnar á fimmtudagskvöldið og mæta síðan Íslendingum, Ítölum og Hollendingum í seinni undankeppninni sem er leikin í ágúst, nóvember og febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert