Mátti kalla barnsföður sinn ofbeldismann

Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest sýknudóm yfir konu í meiðyrðamáli barnsföður hennar gegn henni. Maðurinn fór fram á að átján ummæli sem konan lét falla um hann á Facebook yrðu dæmd dauð og ómerk. Flest voru þau birt á facebooksíðu hennar sjálfrar en þrenn ummæli birtust annars staðar á miðlinum.

Í ummælunum sakar konan manninn ítrekað um að hafa beitt sig og tvo syni þeirra ofbeldi, ráðist á sig og sparkað í sig. „„Barnið sagðist sakna pabba síns stundum“ er það eina sem var tekið til greina frá skýrslutökunni sem var tekin af syni mínum.

Þrátt fyrir allt ofbeldið sem hann sagði frá, þrátt fyrir að eitt af því ofbeldi sem hann sagði frá væri það alvarlegt að barnavernd kærði hann fyrir það“ er meðal þess sem konan skrifaði á Facebook auk þess að kalla hann „ofbeldismann“.

Ummælin ekki talin tilhæfulaus

Fólkið hafði verið í sambúð um árabil, en eftir sambúðarslitin hófust málaferli um forsjá og umgengni en á endanum gerðu þau dómsátt um sameiginlega forsjá en að lögheimili yrði hjá konunni, að því er fram kemur í dómnum. Konan hafði lagt fram sex tilkynningar til barnaverndar árin 2013-2016 auk þess að leita til sálfræðinga og geðlækna vegna meints ofbeldis.

Konan byggði vörn sína á að ummælin væru sönn en til vara að þau fælu í sér gildisdóm. Var það mat Landsréttar að konan hefði með ummælunum tekið þátt í almennri þjóðfélagsumræðu um heimilisofbeldi og rúmt tjáningarfrelsi gildi almennt um slíka umræðu. Þá hefði hún lagt fram gögn sem leiddu líkur að því að ummælin væri ekki tilhæfulaus og hún hefði þar með verið í góðri trú um réttmæti þeirra. Væri sönnunarbyrði mannsins, að ummælin væru beinlínis ósönn, enda þung.

Landsréttur taldi að konan hefði með ummælum sínum tekið í þátt í almennri þjóðfélagsumræðu um heimilisofbeldi og tálmun á umgengnisrétti barna við foreldra. Rúmt tjáningarfrelsi gilti almennt um þátttöku í slíkri umræðu. Enn fremur benti dómurinn á að konan hefði ekki nafngreint barnsföður sinn í færslunum.

Konan var því sýknuð af kröfum mannsins, en málskostnaður fellur á ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert