Fótbolti

Mynd­band: Frá­bær stoð­sending Alberts

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert nýtur sín vel gegn Benevento en þessi mynd var tekin eftir leik liðanna fyrr á leiktíðinni.
Albert nýtur sín vel gegn Benevento en þessi mynd var tekin eftir leik liðanna fyrr á leiktíðinni. Simone Arveda/Getty Images

Albert Guðmundsson lagði upp fyrra mark Genoa í mikilvægum 2-1 sigri liðsins á Benevento í Serie B, ítölsku B-deildinni í knattspyrnu. Markið kom eftir frábært spil leikmanna Genoa og hefur félagið nú birt myndband af markinu á samfélagsmiðlum sínum.

Hinn 25 ára gamli Albert var þarna að leggja upp sitt þriðja mark í 19 deildarleikjum á tímabilinu. Hann hefur einnig skorað þrjú mörk og virðist sem frammistaða hans á leiktíðinni sé farin að vekja athygli liða í efstu deild.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá hvernig leikmenn Genoa, Albert þar á meðal, leika boltanum sín á milli og í gegnum fyrstu pressu Benevento. Sendingarnar eru orðnar alls 15 talsins þegar Albert fær boltann rétt fyrir aftan miðlínu og tekur á rás upp miðjan völlinn.

Þegar hann nálgast vítateig Benevento þá rennir Albert boltanum í hlaupaleið Massimo Coda sem skýtur að marki í fyrstu snertingu og skorar glæsilegt mark.

Sigur Genoa var mikilvægur í baráttunni um sæti í Serie A en liðið situr nú í 3. sæti með 39 stig að lokinni 21 umferð líkt og Reggina sem er sæti ofar en með betri markatölu. Á toppnum situr Frosinone með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×