Árásarmaðurinn var fastagestur í klúbbnum

Star Dance Studio í Monterey Park í dag.
Star Dance Studio í Monterey Park í dag. AFP/Frederic J. Brown

Maðurinn sem skaut tíu manns til bana á dansklúbbi í Kaliforníu í Bandaríkjunum í gær var þar fastagestur.

Hinn 72 ára gamli Huu Can Tran er grunaður um að hafa notað hálfsjálfvirka skammbyssu til þess að skjóta, að því virðist handahófskennt, á fjölda fólks inni á dansklúbbnum Star Dance Studio í borginni Monterey Park í Kaliforníu.

Í kjölfar árásarinnar keyrði Tran að dans-stúdíói í Alhambra-borg og gekk þar inn með byssu í hönd en ungur maður á staðnum réðist að Tran og afvopnaði hann, að því er fram kemur í frétt CNN. Tran tókst þá að flýja í burtu á bíl sínum og tók eigið líf að lokum er lögreglan náði að króa hann af.

Einn til viðbótar látinn

Tran var fastagestur í dansklúbbnum í það minnsta í tvo áratugi. Maður sem var í klúbbnum sagði við CNN að Tran hefði kvartað yfir danskennurum á staðnum sem á að að hafa sagt „illa hluti um sig.“

Tíu manns létu lífið í skotárásinni en einn til víðbótar hefur nú látist af sárum sínum. Enn eru níu manns á sjúkrahúsi sem urðu fyrir árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert