Óttaðist um líf fjölskyldunnar

Eliud Kipchoge
Eliud Kipchoge AFP/EMMANUEL DUNAND

Ólympíumeistarinn Eliud Kipchoge segist hafa óttast um líf fjölskyldu sinnar eftir áreiti sem beindist að honum á samfélagsmiðlum í kjölfar andláts landa hans, Kelvin Kiptum.

Kiptum lést í bílslysi 24 ára gamall í febrúar en hann hafði sett heimsmet í maraþonhlaupi í október á síðasta ári.

Umræðan á samfélagsmiðlum var á þá leið að Kipchoge hafi verið viðriðinn samsæri um að ráða Kiptum af dögum.

„Ég fékk áfall þegar ég sá að fólk segði að ég hefði komið nálægt dauða drengsins. Það voru verstu fréttir lífs míns“.

Kelvin Kiptum heitinn
Kelvin Kiptum heitinn AFP/Justin Tallis

„Mér var hótað því að æfingasvæðið mitt, húsið mitt og fjölskyldan mín yrðu brennd á báli. Ég óttaðist um börnin mín þegar þau fóru í og úr skóla. Ég bannaði þeim að hjóla sjálf á milli staða og keyrði þau og sótti“.

Kipchoge segist ekki ætla að breyta um lífstíl þrátt fyrir hótanirnar sem dynja á honum.

„Íþróttin mín er ekki stunduð í líkamsræktarsal, ég fer út að hlaupa“.

Kipchoge keppir á Ólympíuleikunum í París í sumar fyrir Kenýa þar sem hann getur unnið til sinna þriðju gullverðlauna í röð í maraþonhlaupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert