GR með tvö lið í úrslitum

Aron Snær Júlíusson leikur með GKG.
Aron Snær Júlíusson leikur með GKG. mbl.is/Kristinn Magnússon

GKG og GR leika til úrslita í karlaflokki á Íslandsmóti golfklúbba. GM og GR mætast í kvennaflokki. Úrslitin verða leikin á morgun.

GKG lék gegn GV í undanúrslitum í dag. Þar höfðu Eyjamenn betur í báðum fjórmenningsleikjunum og þurftu því aðeins einn sigur úr þremur tvímenningsleikjum sem voru þá eftir. Aron Snær Júlíusson landaði sigrinum fyrir GKG með 2/1 sigri gegn Kristófer Tjörva Einarssyni en áður höfðu þeir Sigurður Arnar Garðarsson og Jón Gunnarsson sigrað nokkuð örugglega í sínum viðureignum. GKG hefur sigrað í 1. deild karla undanfarin tvö ár.

Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfklúbbur Selfoss mættust í hinum undanúrslitaleiknum og var þetta í fyrsta sinn sem GOS leikur til undanúrslita í efstu deild í karlaflokki. GR hafði betur í báðum fjórmenningsleikjunum en í tvímenningsleikjunum var mikil spenna. Aron Emil Gunnarsson (GOS) sigraði Hákon Örn Magnússon á 18. braut en þeir voru í síðasta ráshóp í þessum leik. Á meðan voru félagar þeirra í bráðabana um sigurinn í leikjum sínum.

Dagbjartur Sigurbrandsson tryggði GR þriðja stigið í leiknum með því að hafa betur gegn Pétri S. Pálssyni á þriðju holu í bráðabana eða 21. Holu. GR-ingurinn Andri Þór Björnsson og Andri Már Óskarsson voru einnig í bráðabana en þeir sömdu um jafntefli eftir að úrslitin voru ljós í leiknum sem var á undan þeim.

Í undanúrslitum í kvennaflokki mættust GKG og GM. Þar sýndi hið unga og bráðefnilega lið GM styrk sinn með öruggum 4-1 sigri. Liðið er að mestu skipað leikmönnum úr stúlknalandsliði Íslands og hin þaulreynda Nína Björg Geirsdóttir er þeim til halds og trausts. GM sigraði í fyrstu fjórum viðureignunum en María Björk Pálsdóttir skilaði eina sigri GKG í þessum leik.

Golfklúbbur Reykjavíkur hefur titil að verja í 1. deild kvenna og liðið kom sér í úrslitaleikinn á ný með góðum 4 1/2:1/2 sigri gegn Golfklúbbi Akureyrar. GR gaf tóninn með því að vinna fjórmenningsleikinn og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir bætti síðan við stigi með öruggum 5/4 sigri.

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir leikur til úrslita með GR.
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir leikur til úrslita með GR. Ljósmynd/EGA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert