Íslandsmótið hófst á maraþonleik

Frá leik HK og Álftaness í Digranesi í gærkvöld.
Frá leik HK og Álftaness í Digranesi í gærkvöld. Ljósmynd/A&R Photos

Keppni í úrvalsdeild kvenna í blaki hófst í gærkvöld í Digranesi í Kópavogi þar sem HK lagði Álftanes að velli í maraþonleik sem tók hálfa þriðju klukkustund.

HK vann fyrstu hrinuna 25:17 en Álftanes vann næstu tvær, báðir 25:20, og var því komið með undirtökin í leiknum. HK-konur gáfust ekki upp, unnu fjórðu hrinu 25:21 eftir mikla baráttu og tryggðu sér oddahrinu. Hún var jöfn þar til staðan var 11:10 fyrir HK en þá skoruðu HK-ingar fjögur síðustu stigin, unnu hrinuna 15:10 og leikinn þar með 3:2.

Stigahæsti leikmaður HK var Líney Inga Guðmundsdóttir með 17 stig og stigahæsti leikmaðurinn hjá Álftanesi var Michelle Miska Traini með 21 stig. 

Næsti leikir HK og Álftaness eru báðir þann 29.september. HK fer þá til Akureyrar og spilar við KA en Álftanes fær Völsung í heimsókn. Í kvöld eru tveir aðrir leikir í fyrstu umferð deildarinnar þegar Völsungur tekur á móti Aftureldingu á Húsavík og KA fær Þrótt úr Reykjavík í heimsókn til Akureyrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert