Yfirtökutilboð Regins í Eik afturkallað

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri …
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags. Samsett mynd

Stjórn Regins hefur ákveðið að afturkalla yfirtökutilboð sitt í Eik fasteignafélag, sem lagt var fram í júní í fyrra.

Í tilkynningu frá Regin kemur fram að félagið muni afturkalla samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins og óska eftir heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að falla frá valfrjálsu tilboði félagsins í allt hlutafé Eikar.

Þá kemur fram að á fundi stjórnenda Regins með stærstu hluthöfum Eikar í síðustu viku hafi verið ljóst að ekki lægi fyrir samþykkti að lágmarki 75% atkvæðaréttar Eikar fyrir tilboðinu áður en gildistími þess myndi renna út þann 21. maí nk.

Í síðustu viku birti Reginn drög að útfærslu sáttar við Samkeppniseftirlitið og nánari umfjöllun um skiptihlutföll mögulegs samruna félagsins og Eikar, í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið birti tillögu Regins að sátt og óskaði eftir sjónarmiðum vegna hennar. Í sömu tilkynningu kom fram að Reginn og Kaldalón hf. hefðu hafið samningaviðræður um kaup Kaldalóns á tilteknum eignum í kjölfar þess að viðskipti samkvæmt valfrjálsa tilboðinu kæmu til framkvæmda.

Tæplega 11 mánaða vinna að baki

Tilboðið var upphaflega lagt fram þann 7. júní á síðasta ári í kjölfar markaðsþreifinga við stærstu hluthafa Eikar. Stjórn Eikar lagði upphaflega til að tilboðinu yrði hafnað en eftir að Reginn hækkaði tilboðsverðið þann 14. september sl. lagði stjórn Eikar áherslu á að hver hluthafi tæki ákvörðun en endanleg greinargerð stjórnar Eikar liggur ekki fyrir. Gildistími tilboðsins var framlengdur alls sjö sinnum vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á mögulegum samruna, frummats þess á væntum áhrifum mögulegs samruna og vegna sáttaviðræðna Regins við Samkeppniseftirlitið.

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, segir í tilkynningunni að hratt verði unnið úr þessari niðurstöðu.

„Það verða farnar aðrar leiðir að sama marki. Þessi samruni er síður en svo eina sóknarfærið sem við höfum augastað á. Markmið okkar er að byggja upp til langs tíma og halda áfram að styrkja kjarnasvæði Regins sem eiga inni mikil vaxtatækifæri. Það er ljóst að búið er að hrista upp í markaðnum og það eru áhugaverðir tímar fram undan,“ segir Halldór Benjamín í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK