Er þegar búinn að tvöfalda markafjöldann í efstu deild

Guðmundur Magnússon hefur farið á kostum á tímabilinu.
Guðmundur Magnússon hefur farið á kostum á tímabilinu. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Guðmundur Magnússon hefur leikið frábærlega í liði Fram í Bestu deild karla á tímabilinu og skoraði til að mynda þrennu í 3:3-jafntefli gegn ÍBV í kvöld. Þar með er hann kominn með níu mörk í fyrstu tíu leikjum sínum á tímabilinu.

Fyrir þetta tímabil hafði Guðmundur aðeins skorað átta mörk í 71 leik í efstu deild hér á landi og því er hann þegar búinn að tvöfalda markafjölda sinn í efstu deild á þessu tímabili og rúmlega það.

Mest hafði hann skoraði þrjú mörk á tímabili í efstu deild og hafði gert það í tvígang, fyrst með Fram sumarið 2009 og svo með Víkingi frá Ólafsvík sumarið 2013.

Guðmundur hefur raðað inn mörkunum í næstefstu deild þar sem hann hefur skorað 58 mörk í 148 leikjum en það hefur reynst honum erfiðara að skora reglulega í efstu deild.

Stíflan er hins vegar brostin svo um munar enda skorar Guðmundur grimmt í Bestu deildinni um þessar mundir og er næstmarkahæstur á eftir Ísaki Snæ Þorvaldssyni, sem hefur skorað tíu mörk í níu leikjum fyrir Breiðablik í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert