Ráðherra hefur „tröllatrú á ferðaþjónustunni“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir ferðaþjónustuna þá atvinnugrein sem líklegust …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir ferðaþjónustuna þá atvinnugrein sem líklegust er til að skapa störf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur tröllatrú á því að ferðaþjónustan nái sér á strik þegar veirufaraldrinum lýkur. Þetta segir hún í opnunarávarpi við kynningu sviðsmyndagreiningar sem Ferðamálastofa, KPMG og Stjórnstöð ferðamála unnu í sameiningu.

„Það er mikilvægt að allir geri sér ljóst að ferðaþjónustan gegndi lykilhlutverki við að reisa efnahagslíf okkar við fyrir tæpum áratug og skapa í kjölfarið eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldissögunnar,“ segir ráðherra.

Þá hafi ferðaþjónustan lagt um 8% til landsframleiðslu Íslands í fyrra, en það er hæsta hlutfall allra Norðurlandanna. Kórónuveirufaraldurinn bitnaði því mikið á þeim geira, þar sem tekjur hans nánast hurfu í einni svipan.

„Fjögur af hverjum fimm störfum sem höfðu tapast á Íslandi um mitt ár, miðað við sama tíma í fyrra, voru í ferðaþjónustu, eða um 10.500 af alls 13.500,“ segir Þórdís Kolbrún. „Ríkissjóður getur ekki borið Covid-viðbrögðin einsamall. Allir hafa hlutverki að gegna; fyrirtækin, hluthafar, fjármálakerfið og að sjálfsögðu líka ríkið.“

Ferðaþjónustan lagði um 8% til landsframleiðslu í fyrra.
Ferðaþjónustan lagði um 8% til landsframleiðslu í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir ýmsar lausnir vera til skoðunar til að auðvelda aðgengi að landinu, m.a. er verið „að athuga með ýmsa möguleika á móttöku fólks, svo sem að viðurkenna Covid-skimun frá heimalandi, taka upp hraðskimun og mögulegt fyrirkomulag við að taka á móti fólki með öruggum hætti um leið og aðstæður leyfa.“

Ráðherra er þó bjartsýn á framtíðina. „Þegar aðstæður leyfa verður ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem er líklegust til að skapa störf og styðja við eftirspurn. Þannig að við heilt yfir höfum tröllatrú á ferðaþjónustunni og ég efast ekki um það í eina mínútu að við munum byggja upp mjög sterka og eftirsóknarverða ferðaþjónustu á Íslandi þegar þessum tíma lýkur,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert