Sextíu leikja bann fyrir kynþáttaníð

parebanken Sör-völlurinn, heimavöllur Start.
parebanken Sör-völlurinn, heimavöllur Start. Ljósmynd/Start

Norska knattspyrnufélagið Start hefur sett stuðningsmann liðsins í sextíu leikja bann fyrir kynþáttaníð en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Stuðningsmaðurinn gerðist sekur um kynþáttaníð í leik Start og Sandefjord sem fram fór á laugardaginn síðasta en leiknum lauk með 1:0-sigri Sandefjord.

Stuðningsmaðurinn, sem er ársmiðahafi hjá félaginu, hrópaði ókvæðisorð að Brice Wembangomo, leikmanni Sandefjord, en hann er dökkur á hörund.

Stuðningsmaðurinn viðurkenndi brot sitt en nokkur vitni voru að atvikinu og höfðu þau öll samband við forráðamenn félagsins. 

„Við höfum tekið þá ákvörðun að meina stuðningsmanninum að mæta á næstu sextíu heimaleiki liðsins sem fram fara á Sparebanken Sör-vellinum,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.

Jóhannes Harðarson er þjálfari Start og Guðmundur Andri Tryggvason er leikmaður liðsins. 

Start er í fjórtánda sæti norsku úrvalsdeildarinnar af sextán liðum en Start er með 19 stig, 5 stigum frá öruggu sæti, en fjórtánda sætið er umspilssæti um fall úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert