„Vaxa ekki frá göllum sínum eða meinum“

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands.

Gísli Vilhjálmsson, tannlæknir og sérmenntaður tannréttingarsérfræðingur furðar sig á ummælum Maríu Heimisdóttur, forstjóra sjúkratrygginga, sem sagði í samtali við Morgunblaðið á miðvikudag að dæmi væri um að frávik barna sem fæðast með skarð í vör  yxu af börnum. Ennfremur telur hann ákvörðun Sjúkratrygginga sé í trássi við tilgang reglugerðarbreytinganna og vilja ráðherra.  

„Undirritaður hefur unnið með börnum með skarð í vör og góm í vel rúm 30 ár. Skarðabörn sem fæðast með þennan galla fá ekki bót á fæðingargalla sínum nema með skurðaðgerðum og tannréttingum. Þau vaxa ekki frá galla sínum eða meinum,“ segir Gísli.

Gísli Vilhjálmsson, sérfræðingur í tannréttingum.
Gísli Vilhjálmsson, sérfræðingur í tannréttingum. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á miðvikudag var reglugerð rýmkuð til að koma til móts við lítinn hóp fjölskyldu barna með skarð í vör sem ekki hefur átt kost á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Þrátt fyrir reglugerðarbreytingar sem gagngert áttu að koma til móts þennan hóp hefur hann fengið synjun um greiðsluþátttöku. 

 María  sagði í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir reglugerðarbreytingu þurfi áfram að uppfylla ákveðin skilyrði. Hún segir að hluti frávika af þessu tagi vaxi af barninu og því skipti máli að skoða umfang vandans og að hefja upphaf meðferðar á réttum tíma í stað þess að byrja of snemma.

Gísli segir þetta ekki rétt hjá Maríu. „Þar sem aðgerðarsvæðið er í námunda við fullorðinstennur og annarra andlitsbeina þá þarf samvinnu skurðlækna og sérlærðra tannlækna, oftast nær lýtalækna, tannréttingasérfræðinga og kjálkaskurðtannlækna til að vinna að bót gallans. Skurðaðgerðirnar hafa aftur á móti oftast nær áhrif á andlitsþroska barnanna í kjölfar aðgerðanna vegna örvefsmyndunar á aðgerðarsvæðinu,“ segir Gísli.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. aðsend mynd


 

Sjúkratryggingar virðist ekki í sambandi við ráðherra 

Hann segir að um sé að ræða 4-5 börn sem ekki hafi átt tök á greiðsluþátttöku. „Tvær reglugerðarbreytingar Svandísar Svavarsdóttur ráðherra heilbrigðismála hafa verið gerðar á síðustu tveimur árum þar sem ætlunin var að öll börn sem fæðast með þennan galla hvort sem gallinn væri í tanngarði eða gómhvelfingu fengju bæði læknis- og tannréttingakostnað sinn greiddan,“ segir Gísli.

Þá segir hann að ráðherra hafi staðfest opinberlega að það hafi verið tilgangur reglugerðarbreytinganna. Samt hafi Sjúktryggingar Íslands ekki orðið við að breyta verklagi sínu við afgreiðslu umsókna hluta þessara barna.

„Miðað við svör Maríu sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands í umræddu viðtali þá virðist Sjúkratryggingar Íslands ekki vera í miklu sambandi við heilbrigðisráðherra eða að vinna samkvæmt vilja ráðuneytisins,“ segir Gísli.

Haldi áfram að verja verklag sem byggi á mismunun 

„Sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands heldur hún (María) áfram að verja eldra verklag.  Það byggir á því að mismuna börnum eftir því hvernig fæðingargalla þau fá í vöggugjöf og í þokkabót gefa í skyn að börnin vaxi frá vandamáli sínu. Fjöldi foreldra þessara barna hafa haft samband við mig í kjölfar viðtalsins fullir hneykslunar á svörunum.  Að börn þeirra ættu von á sjálfkrafa vaxtarþroskalækningu sem er fjarri sanni. Hvernig væri ef forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Heilbrigðisráðherra eigi samtal til að leysa þetta sanngirnismál þessara örfáu barna og foreldra þeirra,“ segir Gísli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka